148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[12:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég hefði svo sem getað komið í andsvör við ráðherra en ákvað að koma í örstutta ræðu. Ég var kannski ekki sérstök talsmanneskja þessa frumvarps þegar það kom fram á sínum tíma og var til umfjöllunar í fjárlaganefnd. Áhugavert að nú fer það til efnahags- og viðskiptanefndar. Það er spurning um hver heldur á málinu hverju sinni hvert það fer. En mér finnst margt í þessu frumvarpi ágætt, annað síðra. Við höfum rætt það í þingflokki Vinstri grænna að það er eitt og annað sem við teljum að megi fara vel yfir.

Ég vil fyrst nefna Vegagerðina, en neikvæð eiginfjárstaða hennar hefur verið mikið til umræðu í þinginu. Nú eiga öll vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti og þess háttar að falla í ríkissjóð en Vegagerðin situr uppi með milljarða í mínus á efnahagsreikningi sínum. Verður það t.d. strikað út í upphafi? Svo má líka spyrja: Hvert er þá viðmiðið? Við erum með vanfjármagnaða samgönguáætlun því að þessar tekjur hafa ekki runnið, við þekkjum öll umræðuna, til Vegagerðarinnar heldur að hluta til inn í ríkissjóð þrátt fyrir að vera markaðar, sem er auðvitað dæmi um að mörkunin virkar ekki. En við hvað miðum við? Hér kemur fram að útgjaldaheimildir Vegagerðarinnar hafi verið úr takti við markaðar tekjur til málaflokksins. En það er ekkert tekið á því. Ég bið nefndina um að velta því aðeins fyrir sér: Hvert á upphafsviðmiðið að vera, hvernig ætlum við að láta það þróast? Ætlum við að láta það þróast bara með þeirri samgönguáætlun sem þingið samþykkir hverju sinni? Það höfum við ekki gert. Við erum með samþykkta samgönguáætlun sem við höfum ekki fjármagnað. Það liggur fyrir í lögum að þetta á að vera þannig þó að við höfum ekki framkvæmt það með þeim hætti.

Síðan langar mig að velta upp gjaldinu í Framkvæmdasjóð aldraðra. Nú er það nefskattur sem leggst jafnt á alla landsmenn sem greiða skatt. Ég velti því fyrir mér hvort við getum verið með nefskatt ef það er í raun enginn sem beinlínis tekur við honum. Nefskattur er í eðli sínu ósanngjarn. Hann kemur jafnt við alla, alveg sama hvar þeir standa í tekjuhópunum. Mér finnst þetta umhugsunarefni, burt séð frá því að hann hefur verið misnotaður í rekstur en ekki uppbyggingu eins og hér var rætt áðan. Þetta er eitt af því sem ég sting hér að nefndinni og bið hana að velta fyrir sér.

Fyrst hæstv. ráðherra nefndi ofanflóðasjóð og að við legðum kannski of háa skatta á landsmenn miðað við fjárheimildir til framkvæmda vil ég segja að það er auðvitað grundvallaratriði í málinu, fjárheimildirnar. Við getum flýtt framkvæmdum. Mér finnst við t.d. hafa farið illa að ráði okkar fyrir austan að hafa ekki aukið fjárheimildirnar til að klára það sem var eftir þar og öll tæki og tól á staðnum. Það er dýrt að vera sífellt að byrja upp á nýtt í stað þess að halda áfram. Ef menn eru að hugsa um einhvers konar skattalækkun í þessu samhengi þá myndi ég frekar vilja sjá að framkvæmdum yrði flýtt, útgreiðsluheimildir auknar, því að þessi jarðvegsvinna er yfirleitt í hinum dreifðu byggðum sem ætti ekki að sprengja allt í þenslu. Þetta er eitthvað sem við höfum rætt innan okkar þingflokks ásamt fleiru. Ég er reyndar ekki búin að sjá áætlun ofanflóðasjóðs til næstu fimm ára. En mér finnst þetta vera eitthvað sem þarf líka að skoða áður en farið er að draga úr þeim tekjum sem sjóðnum eru ætlaðar.

Síðan langar mig líka að biðja nefndina að kanna varðandi ofanflóðasjóð að það hefur verið aðeins rætt um framlag eða svokallaða styrki til sveitarfélaga sem hafa verið veittir í gegnum þessar framkvæmdir. Það hefur verið í formi lána sem hafa svo ævinlega verið í raun styrkir því að þau hafa ekki verið endurgreidd af sveitarfélögunum. Mér skilst að það eigi að gjaldfæra þetta á móti inneign, ef svo má segja, eins og ráðherra nefndi að væri til í ofanflóðasjóði. Þá á ofanflóðasjóður ekki neitt, er bara á núlli í upphafi ef þetta frumvarp verður að lögum. Þetta er eitt af því sem ég myndi vilja að nefndin kannaði. Mér hugnast eiginlega ekki að þetta sé gert með þessum hætti.

Þetta voru stærstu atriðin. Ég treysti því að það sem hér er sagt um Ríkisútvarpið, þar er líka um að ræða nefskatt, það er ohf.-fyrirtæki og fyrirkomulagið því með öðrum hætti en hjá Framkvæmdasjóði aldraðra, að þetta orðalag verði eins og ráðherra sagði til þess að Ríkisútvarpið haldi sínu framlagi miðað við það sem nú er gert ráð fyrir. En þetta eru bara fyrstu hugsanir sem runnu í gegn eftir að hafa rúllað í gegnum þetta. Eflaust er margt fleira sem hér þarf að skoða. Eins og fram kom áðan eru margir lagabálkar undir.