148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[13:55]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði að spyrja aðeins út í punkt 4 sem er einn af áherslupunktunum í A-hluta. Þar er hreinlega sagt berum orðum að ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið. Í drögum að kerfisáætlun 2017–2026 voru tveir valkostir teiknaðir upp til styrkingar meginflutningskerfisins. Þar var önnur leiðin svokölluð hálendisleið sem væntanlega er þá verið að slá út af borðinu þarna og hin svokölluð byggðaleið.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta þýði að byggðaleiðin verði fyrir valinu, hvort hálendisleiðin sé þá bara alveg út af borðinu, hvort sem það er jarðstrengur eða loftlína, eða hvort ríkisstjórnin sjái fyrir sér einhverja þriðju leið sem hefur ekki verið til umræðu. Ég læt þetta duga í fyrra andsvari.