148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki skal ég segja hvort hv. þingmaður misskildi mig. Ég misskil mig nú oftast sjálfur og myndi því ekki lá honum það ef hann félli í þá gryfju. Ég myndi kannski orða það frekar þannig að hv. þingmaður hafi tekið sér það bessaleyfi að túlka orð mín og fara með þau dálítið áfram. Það eina sem ég gerði var að lesa upp þessa skilgreiningu úr tillögunni og sagði svo að ég hefði í sjálfu sér ekki á takteinum neina aðra reiknireglu. En ég held að með þetta eins og margt annað í lífinu, að þótt sett sé ákveðin stefna og viðmið sem eiga að ganga eftir þurfi mjög gjarnan að skoða tilvik sérstaklega. Það er ekki bara fyrir það eitt að setja línu í jörð, við þurfum að vega það á móti þeim umhverfisáhrifum sem loftlínur geta haft, velta því vel fyrir okkur eftir því hvaða svæði við erum að fara yfir.

Fyrir mér er ekki hægt að setja ákveðna krónutölu sem alls staðar gildir. Hins vegar þakka ég hv. þingmanni fyrir að koma inn á raforkuverðið. Það er mjög mikilvæg ábending hjá hv. þingmanni sem við í hv. atvinnuveganefnd munum væntanlega koma inn á. Hv. þingmaður kom með, ég veit ekki hvort það er hugmynd eða hvað, að ef þetta þýði meiri raforkukostnað þá stígi ríkið mögulega þar inn í. Ég er opinn fyrir því að skoða allt. En í því efni vil ég ítreka það sem ég hef sagt hér nokkrum sinnum að þá þarf að skoða heildarkostnaðinn. Þótt kostnaðurinn geti í upphafi verið meiri getur heildarkostnaðurinn við það að setja í jörð verið minni þegar upp er staðið. En þá þarf kannski að brúa eitthvert bil.