148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[14:52]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er afar áhugavert að skoða að á þessum tíma, þegar við erum í innleiðingarferli á ýmsum tilskipunum, bæði á sviði fjarskipta og á sviði raforkuflutnings, er í raun tekin stefnumarkandi ákvörðun um eina gjaldskrá fyrir allt landið í fjarskiptum. Það hefðum við í eðli sínu alveg getað í raforkuflutningskerfinu, ef ég skil málið rétt. Það má vel vera að ég sé að misskilja eitthvað, ég ætla ekki að slá loku fyrir það. En það sem ég nefndi í ræðu minni um tekjumarkamódel sem veitufélögin reka sig á var að fyrir fyrirtækið Rarik væri í eðli sínu hægt að hafa eitt tekjumarkamódel fyrir þéttbýli og dreifbýli. Innan þess módels væri hægt að miðla innan fyrirtækisins og hafa jafnvel tvískipta gjaldskrá. Það þekkist alveg, eitt tekjumarkamódel, en í Noregi er mismunandi gjald á milli dreifbýlis og þéttbýlis.

Ég hef ekki tölur á hraðbergi fyrir hv. þingmann um það hvað kostar að jafna þennan flutningskostnað. En þetta eru verulega miklir fjármunir, þetta er slík stærðargráða. Ef við höldum okkur bara við veitusvæði Rariks eru 96% notenda Rariks, ef ég man tölurnar rétt, á þéttbýlishlutanum en 4% í dreifbýli. Ég ætla að hafa smáfyrirvara á þessum tölum mínum því að ég hef þær ekki alveg handbærar þótt ég sé með mikið af pappírum hérna. Það er umtalsverður munur, eins og ég rakti í ræðunni áðan, á þéttbýlis- og dreifbýlisgjaldskránni, á hækkunum þar á milli, talsverður munur.