148. löggjafarþing — 24. fundur,  8. feb. 2018.

stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

179. mál
[15:18]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er eiginlega kominn svona nokkurn veginn að sama punkti og hæstv. ráðherra kom inn á varðandi þingsályktunartillöguna sem er lögð fram í fyrsta skipti, hvernig við sjáum þetta fyrir okkur, hvernig þingið hefur ákveðna sýn og aðkomu að þessu og síðan hvernig hv. þingmaður ræddi um kerfisáætlunina. Hún er sett til tíu ára og þriggja ára framkvæmdaáætlun um framkvæmdirnar og hvernig menn ætli að standa að þeim. Síðan kemur einmitt fram í framlagðri tillögu að Orkustofnun eigi að votta það ferli.

Það mátti skilja hv. þingmann áðan sem svo að það ætti að vera meira sett fram í þingsályktunartillögunni, í þingumræðu hér varðandi þetta. Þá langar mig að spyrja: Vill hv. þingmaður breyta aðkomu þingsins að þessu og koma með beinskeyttari hætti inn í þetta ferli en er í því fyrirkomulagi sem við erum með í dag til að takast á við nákvæmlega þennan hlut?

Fram kom í umræðu fyrr í dag, og ég ræddi sjálfur í atvinnuveganefnd í morgun þennan punkt varðandi Landsnet og þau fyrirtæki sem eru eigendur Landsnets, orkufyrirtæki landsins, hvernig aðkoma þingsins ætti að vera að þessu. Þetta er hf. og er svolítið flækjustig. Hvað er eðlileg aðkoma þingsins að þessu máli sem snýr kannski að grunninnviðum landsins? Ég vildi bara rétt velta þessu upp og fá fram hjá hv. þingmanni nákvæmlega hvað hann á við varðandi þingsályktunartillöguna og síðan aftur kerfisáætlunina. Hvert á okkar hlutverk í þessu ferli að vera eins og við ræðum það í dag?