148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

248. mál
[14:35]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég er ekki hér til andsvara heldur ætla aðeins að koma með stutt innlegg í umræður um þetta lagafrumvarp. Hér er verið að fara í nauðsynlegar endurbætur á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og fleiri lögum. Það liggur nokkuð í augum uppi að hér er verið að bregðast við rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Að sjálfsögðu er mjög brýnt að bregðast við því á réttan hátt.

Þetta er allflókið mál með tilliti til laga og lagatúlkunar. Það sést mjög vel á langri greinargerð að þarna eru álitamál eða túlkunaratriði sem verið er að gera grein fyrir og er það í sjálfu sér vel. Aðalatriðið er þó þetta með þátttökurétt almennings. Hann ber að styrkja og efla og virða. Það er þá kannski meginatriðið í endurbótum á þessum lögum.

Allt ferlið við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda er afar mikilvægt og mikið notað ferli sem varðar umhverfi okkar og lífsgæði og því er mjög brýnt að framkvæmd sé með sem allra besta móti þegar kemur að réttindum almennings og félagasamtaka og annarra sem um þetta véla á móti stjórnsýslunni og sérfræðingunum. Tekið er tillit til ýmissa atriða í umsögnum, Landverndar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins og Skipulagsstofnunar. Gerð er grein fyrir því hér mjög vandlega í greinargerðinni. Verði þetta frumvarp samþykkt verður í lögum, eins og hér kemur fram, sérstök kæruheimild vegna athafna og athafnaleysis í tengslum við þátttökurétt almennings í ferlinu við mat á umhverfisáhrifum og eins þessar breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem kæruheimildin verður skýrari en nú er.

Ég lít svo á að um sé að ræða frumvarp til hagsbóta fyrir alla, ekki síst umhverfi okkar, og tek undir orð hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hér á undan mér um að málinu verði vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.