148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[15:30]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvörin og spurningalistann. Þetta er svo mikið að ég næ þessu örugglega ekki í einni umferð, en ég reyni.

Varðandi stöðuna á öðrum Norðurlöndum er slík vinna í gangi held ég á öllum Norðurlöndum, að aðlaga regluverkið að reglum Evrópusambandsins. Noregur fékk athugasemd fyrir ári eins og ég nefndi áðan og Danir eru að skoða þetta líka þannig að vinnan er í sjálfu sér á fleygiferð. En ég held að strangasta löggjöfin sé í Noregi og á Íslandi.

Varðandi það hvort við séum að leggja til algert hömluleysi er það alls ekki svo. Það kemur mjög skýrt fram að við viljum fækka kvöðum en það er enn þá þannig, alla vega í þeim hugmyndum sem við höfum lagt fram, að það eru námskeið og próf og leyfið þar með skylt. Síðan það sem ég nefndi áðan í andsvörum við annan hv. þingmann um kynferðisbrot eða síendurtekin ökuleyfisbrot eða eitthvað slíkt.

Ég er að missa af einni spurningunni. (HVH: … eftirlitið.) Já, það er Samgöngustofa sem fer með eftirlit. Ég þekki ekki nákvæmlega hversu stíft það er og hversu mikið frumkvæði þeir hafa að eftirlitinu en veit þó að það eru til undanþágur. Það er náttúrlega hægt að leggja inn leyfi eða koma því áfram og þá heyrir viðkomandi undir sömu kvaðir. Það er alla vega fylgst með því. En ég er ekki alveg viss um hversu mikið frumkvæði Samgöngustofa hefur að eftirlitinu. Aðrir geta svarað því.