148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[16:26]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Nú langar mig til þess að forvitnast aðeins út í notkun hv. þingmanns á orðinu róttækt, vegna þess að það er orð sem fólk notar yfirleitt þegar það vill stuða umræðuna svolítið. Ég spyr hv. þingmann af því að hann er meðflutningsmaður að máli sem snýst um að fjarlægja húsnæðislið úr útreikningum og verðbólgu. Er það ekki líka mjög róttæk tillaga? Það vill þannig til að ég er sammála þeirri tillögu, algjörlega sammála henni meira að segja, en hún er engu að síður töluvert róttækari en þessi tillaga, þar sem hún hefur umbyltingaráhrif á allt hagkerfi okkar.

Mig langar líka að segja varðandi ummæli hv. þingmanns um Svíþjóð að ég hef ekki séð nein gögn sem benda til þess að þetta sé meira lýsandi fyrir sænskan leigubílamarkað en sænskt samfélag. Ég er algjörlega sammála, við ættum að fara varlega í alla þessa umræðu, en gerum það samt á (Forseti hringir.) grundvelli staðreynda.