148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hv. forseti. Ég vil minna hv. þingmann á að Sjálfstæðisflokkurinn er stofnaður úr tveimur flokkum, Íhaldsflokknum og Frjálslyndaflokknum. [Hlátur í þingsal.] Þannig að þessi kleyfhugi er nú ekki alveg nýr. Varðandi mótþróann þá heitir þetta mótþróaþrjóskuröskun, [Hlátur í þingsal.] sem ég hef oft fengið að heyra á mínu heimili að ég sé illa haldinn af.

Varðandi áfengisfrumvarpið nýja. (Gripið fram í: Fyrst verðum við að tala um það.) — Fyrst verðum við að tala um það, sem er náttúrlega miklu skemmtilegra umræðuefni. Mig minnir að fyrsti flutningsmaður á þessari þingsályktunartillögu hafi nú verið frekar andsnúinn áfengisfrumvarpi sjálfstæðismanna á sínum tíma, ef ég man rétt. Hv. þingmaður neitar því þá. Ég er auðvitað ekki á móti samkeppni en ég geri þá kröfu að hún sé heilbrigð og á jafnréttisgrunni og að gerðar séu kröfur til þeirra sem veita svona mikilvæga þjónustu.

Uber mun ekki gera það. Það þarf að breyta Uber mikið til þess og þess vegna berum við þetta ekki saman, að mínu viti, eins og þetta er í dag. En samkeppni er mjög góð. Og af því að hv. þm. Birgir minntist á það hér að lögunum í Svíþjóð hefði verið breytt 1986, þá var ég þar vorið 1986 og reyndi í þrjá klukkutíma einhvern tímann um miðja nótt að fá leigubíl. Það hefur sennilega verið rétt áður en þessu var breytt. Það var ekki hægt að fá leigubíl í Svíþjóð þá, ekki hægt. Ég vil ekki sjá það hér.

Ég vil gjarnan hafa heilbrigða samkeppni, gera miklar kröfur, af því að það er beinlínis öryggisatriði.

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til þingmanna að þeir nefni aðra þingmenn fullu nafni.)