148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

frelsi á leigubifreiðamarkaði.

201. mál
[18:13]
Horfa

Flm. (Hanna Katrín Friðriksson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hressilegar umræður og maður hefur orðið margs vísari hér í dag. Eitt af því sem situr kannski helst í mér er að svo virðist sem hlekkurinn á milli íhaldsins og frjálslyndis liggi í áfenginu. Það er einhvern veginn niðurstaðan hjá mér.

Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson er búinn að fara vel yfir það þannig að áfengið mun kannski ekki koma oftar við sögu þegar vinur minn hv. þm. Brynjar Níelsson kemur hingað upp í ræðustól og ræðir um málið. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að þetta var honum mjög ofarlega í huga þegar við ræddum breytingar á mannanafnalögum um daginn. Þá er það bara skýrt.

Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann um er að hann talar um muninn á þingsályktunartillögunni sjálfri og síðan greinargerðinni og þar sé greinilegt, í hinu og þessu, að verið sé að létta á kröfum. Mig langar að spyrja svo ég geti vonandi létt áhyggjunum: Hvað nákvæmlega er hv. þingmaður að vísa í með því? Ég er með hana hérna.