148. löggjafarþing — 30. fundur,  27. feb. 2018.

almenn hegningarlög.

213. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það getur ekki verið gaman að vera hangandi í stöðu sakbornings í mörg ár, það getur ekki verið. Það er auðvitað sérstakt með þetta ákvæði að það sé í rauninni dómsmálaráðuneytið eða hæstv. dómsmálaráðherra sem þurfi að taka ákvörðun um framgang málsins.

Nú ætla ég að leyfa mér að giska. Ég get ekki vitað það fyrir víst, en mig grunar að málunum sé þannig fyrir komið vegna þess að þetta snýst um að tala máli erlendra aðila hér á landi, mig grunar að það sé tengingin og skýringin á því af hverju þessu sé svona fyrir komið. En mér finnst það engu að síður furðulegt fyrirkomulag. Við myndum losna við þetta alla vega að hluta til með því að fella ákvæðið út.

En eins og við ræddum í (Forseti hringir.) fyrri andsvörum þurfum við að skoða nánar allan þennan kafla um aðkomu hæstv. ráðherra.