148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Á morgun er hinn alþjóðlegi hrósdagur. Ég ætla því að taka smáforskot á sæluna hér í dag. Þann 24. janúar sl. átti að taka til afgreiðslu skýrslubeiðni frá þeim sem hér stendur og níu öðrum þingmönnum. Tilgangur skýrslubeiðninnar var að taka saman þær ábendingar um ýmsa króka og kima stjórnsýslunnar sem komu fram í rannsóknarskýrslum Alþingis og útskýra hvernig þeim ábendingum hefði verið framfylgt, þingi og þjóð til upplýsingar. Það sem gerðist þegar skýrslubeiðnin var tekin til afgreiðslu var dálítið óvenjulegt. Fjármálaráðherra mætir í atkvæðaskýringu og kallar skýrslubeiðnina vanhugsaða. Aðrir stjórnarþingmenn hvöttu til þess að draga skýrslubeiðnina til baka eða breyta henni einhvern veginn. Ég féllst á að hlusta á þær hugmyndir sem fólk hafði og bað um að málið yrði tekið af dagskrá til þess að hlusta á þær hugmyndir. Næstu vikurnar ýtti ég á eftir því að fram kæmu einhverjar hugmyndir að breytingum, nákvæmlega um hvað gagnrýnin snerist, á hvern hátt skýrslubeiðnin væri vanhugsuð, en ekkert gerðist.

Því bað ég um það í störfum þingsins í síðustu viku að skýrslubeiðnin yrði sett aftur á dagskrá. Það varð hins vegar til þess að fólk tók við sér og ég fékk nokkrar ágætishugmyndir frá hv. þm. Birgi Ármannssyni. Ein af hugmyndunum var bara mjög góð, ég skrifaði hana inn í skýrslubeiðnina og verður hún á dagskrá þingsins á morgun að öllu óbreyttu, eða ég vona að yfirlestur og allt svoleiðis gangi vel.

Mig langaði því bara til að hrósa fyrir samvinnuna. Þrátt fyrir að hún hafi byrjað dálítið hryssingslega og gengið frekar stirðbusalega fyrir sig framan af, þá taka Píratar málefnalegri gagnrýni óháð því hver gagnrýnir, við þurfum ekki ráðherrastóla til að tryggja samstarf. Ég vil því bara hvetja til þess að vinnubrögðin verði svona oftar, kannski mínus hryssingslætin og mínus stirðbusahátturinn, en þetta var samt samstarf. Auðvitað lærum við af því og gerum betur næst.