148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

endurnot opinberra upplýsinga.

264. mál
[16:39]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta frumvarp er fram komið og ég held að það sé framfaraskref og í samræmi við tíðarandann, að auka aðgengi að upplýsingum og frelsi til þess að hagnýta upplýsingar sem stafa frá hinu opinbera eða stjórnvöldum. Um leið kemst ég auðvitað ekki hjá því að minnast á að uppruni þessa kemur frá Evrópu og Evrópusambandinu, eins og margt annað gott sem rekur á fjörur okkar og er til bóta. Ég vil því taka skýrt fram að ég fagna frumvarpinu og tel það vera gott.

Ég vil þó aðeins ræða nokkur atriði sem mér finnst vert að ræða frekar og velta fyrir sér hvort fyrirkomulagið sem hér er gert ráð fyrir sé endilega það besta. Það var að hluta til komið inn á þessi atriði í svörum og andsvörum við flutning frumvarpsins hjá hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni.

Ég velti fyrir mér t.d. 3. gr. frumvarpsins þar sem verið er að tala um rétt almennings til endurnota opinberra upplýsinga. Þar stendur:

„Opinberir aðilar geta ákveðið að gera upplýsingar í vörslum þeirra aðgengilegar til endurnota …“

Hér myndi ég velta fyrir mér hvort það ætti ekki að standa bara — eiga að eða skulu gera upplýsingar aðgengilegar. Við erum að tala um upplýsingar sem eru þegar opinberar eða menn eiga rétt til þeirra. Ég velti því fyrir mér, af því að ég held að við eigum að hafa meginregluna þá að allt sé aðgengilegt og síðan eru undantekningar ef það er ekki. Og það geta alveg verið málefnalegar ástæður fyrir því að upplýsingar eigi ekki að vera aðgengilegar.

Fyrirsögn 5. gr. er: Sérstök skilyrði fyrir endurnotum opinberra upplýsinga, og með leyfi forseta hljóðar greinin svona:

„Opinberum aðilum er heimilt að áskilja að endurnot upplýsinga uppfylli sérstök skilyrði, svo sem um gæði upplýsinga og uppfærslu þeirra, t.d. með því að gera endurnotin leyfisskyld. Slík skilyrði skulu þjóna málefnalegum tilgangi, gæta skal samræmis og jafnræðis við útfærslu þeirra og þau mega ekki takmarka möguleika á endurnotum upplýsinganna eða samkeppni óhóflega.“

Þá má væntanlega takmarka samkeppnina hóflega.

Í þessu samhengi velti ég fyrir mér af hverju eigi að setja þessi skilyrði um birtingu eða frekari vinnslu gagna. Þetta minnir mig á sögu sem mér var sögð þegar fróðleiksfús maður var að velta fyrir sér fjölda hænsnfugla á Íslandi og eina leiðin til að fá einhverjar upplýsingar um það var að tala við Bændasamtökin eða tölfræðideild Bændasamtakanna og leitað var þangað. Og jú, jú, það var ekkert vandamál, þær upplýsingar voru allar til, en það fylgdi auðvitað með: Til hvers ætlar þú að nota þetta, væni minn? Ég held að stjórnvöldum komi bara ekkert við til hvers menn ætla að nota svona gögn vegna þess að oft er tilgangurinn sá að setja þau í samhengi við einhverja aðra hluti sem er ekki endilega hægt að sjá fyrir.

Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé ekki óþarfi. Ef gögnin eru, gagnaseríurnar, aðgengileg hvort eða er, hvort þurfi þá að setja einhver skilyrði um hvað menn geri við þau. Á öðrum stað hérna er sagt að það eigi að geta þess hvaðan þau séu, hver sé uppruni upplýsinganna og hver ábyrgðin sé á framsetningunni. Hún færist auðvitað frá opinbera aðilanum til þess sem matreiðir upplýsingarnar. Það er ekki hægt að ætlast til þess að hið opinbera beri ábyrgð á því hvað er gert við upplýsingarnar, hvernig þær eru matreiddar. Það hlýtur að vera á ábyrgð þess sem setur þær fram.

Þannig að þetta er nú svona það sem ég er að velta fyrir mér og síðan aftur það að menn geti farið að biðja um eða krefjast þess að menn fái leyfi og síðan koma þá einhverjar málsmeðferðarreglur og málsmeðferðarhraði. Ég held að óþarfi sé að hafa þetta sé svona. Þetta lýsi viðhorfum innan úr stjórnsýslunni. Þetta eru gögnin okkar og við þurfum að passa þau og ef menn ætla eitthvað að fara að gera við þau þarf að fá leyfi hjá okkur til að gera það. En þetta er eign okkar, þessar upplýsingar sem búið er að vinna og setja fram.

Ég fagna þessu máli mjög og held að það sé mjög til bóta. Ég held að við eigum eftir að stíga mörg skref og að mörgu leyti, þrátt fyrir allt, erum við ekki mjög framarlega í, hvað eigum við að segja, rafrænni stjórnsýslu og við getum sótt fyrirmyndir til annarra. Noregur var nefndur og ég þekki þau dæmi sem hæstv. ráðherra nefndi, þeir eru mjög duglegir að birta gögn og þau eru mjög aðgengileg. Síðan eru Eistar mjög framarlega í öllum þessum málum og ég held við gætum sótt mjög margt almennt til þeirra um hvernig þeir hafa hagnýtt sér upplýsingatæknina í að bæta stjórnsýslu sína og einfalda.

En eins og ég segi, ef gögnin eru á annað borð opinber og ínáanleg eða hægt að fá skrárnar á bak við sendar, þá eigum við ekki að vera að takmarka notin með þessum hætti. Ég sé ekki raunverulega ástæðuna fyrir því, hvað er verið að passa upp á að gerist. Ef gögnin eru opinber og öllum sjáanleg og nýtanleg, af hverju þarf þá að búa til þennan prósess? Þessi ræða mín er nú kannski meira spurningar en annað, en mér finnst alveg þess virði að við veltum þessu svolítið fyrir okkur, hvernig við viljum standa að þessu og ég held að við eigum bara að byrja svolítið að hafa þetta eins opið og hægt er. Ég held að það sé alls ekki hættulegt. Noregur gerir þetta. Ég veit að í Bandaríkjunum er reglan sú að öll gögn sem hið opinbera sendir frá sér eru til fullra afnota án nokkurs leyfis fyrir alla sem það vilja.