148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[17:57]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessi svör. Við getum auðvitað talað lengi um framboð og eftirspurn og lögmál sem þar gilda. En það er annað sem truflar mig, vegna þess að ég er sammála markmiðum sem menn eru að reyna að ná. Ég held að það sé mikilvægt að við sinnum þessu eins og ég lagði áherslu á hér áðan vegna þess að það er skylda okkar.

Mér sýnist að útgangspunkturinn í þessari tillögu, hv. 1. flutningsmaður leiðréttir mig ef ég hef rangt fyrir mér, sé sá að þetta sé hlutverk ríkisins, að ríkið eigi að stuðla að þessu og vinna að þessu. Mín spurning er: Hafa flutningsmenn velt því fyrir sér með hvaða hætti það geti verið skynsamlegt að ryðja braut einkaaðila, einstaklinga og fyrirtækja, til að sinna varðveislu menningararfsins, m.a. á stafrænu formi líkt og hér er lagt til?

Ég er einn mesti notandi timarit.is sem til er. Það líður ekki sá dagur að ég fari ekki þar inn til að rifja upp söguna og halda mér í sæmilegri æfingu. Ég nota galdratækið Kindle, mér er sagt að útgáfa stafrænna bóka eigi ekki mjög bjarta framtíð þar, en þá opnaðist algjörlega nýr heimur fyrir mér, aðgangur að milljónum bóka óháð landamærum. Það breytir því ekki að ég held áfram að fara í bókabúð, þar er skemmtilegast að vera.

Ég vil fá stutta útskýringu frá flutningsmanni: Er hún rétt, sú tilfinning hjá mér að flutningsmenn gangi út frá því að ríkið skuli standa í þessu verkefni, fjármagna (Forseti hringir.) þetta verkefni, og að þeir hafi ekki hugleitt með hvaða hætti skynsamlegt sé að einkaaðilar komi að verkinu?