148. löggjafarþing — 31. fundur,  28. feb. 2018.

gerð áætlunar um stafræna endurgerð íslensks prentmáls.

219. mál
[18:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil taka örstutt til máls til að fagna þessari tillögu. Mér var sem betur fer boðið að vera með í hópnum til að flytja hana. Ég er þakklátur fyrir það.

Það er nú svo að það sem gerir okkur að þjóð er tungumálið. Við höfum sinnt þeim gamla arfi sem við eigum mjög vel, þ.e. handritatímanum o.s.frv., og höfum búið þeim arfi umgjörð. En tungutak hvers tíma er náttúrlega mjög merkilegt og árin eftir 1850 og fram á þennan dag eru nauðsynlegur þáttur í lífi okkar hér í landinu. Ég held að nauðsynlegt sé, bæði til að varðveita málið og það tungutak sem varð til á þeim tíma, að halda bókum að fólki með því að veita því aðgengi. Og einmitt á þessum tíma eru að koma fram mörg stórkostleg verk sem við eigum og stórskáld voru uppi akkúrat þá og margar þeirra bóka eru örugglega ófáanlegar sem þá voru gefnar út. Ég held að það sé mjög verðugt að vinna þetta með þessum hætti.

Ég verð að viðurkenna líka, þó að það sé kannski ekki innlegg akkúrat í þetta, að það gladdi mig að sjá að ætlast er til að nefndin skili af sér fyrir 1. desember 2018. Verandi í undirbúningsnefnd að hátíðahöldum þess viðburðar þykir mér það mjög við hæfi að við minnumst þessa þó að þetta tilheyri ekki afmælishaldinu, en það er það samt sem áður af því að það hefur verið vilji þeirrar nefndar sem vann þetta og afraksturinn er að koma í ljós eiginlega á hverjum degi. Það vakti fyrir þeim sem skipa þá nefnd að þessi afmælishátíð yrði almannaeign og stæði allt árið. Þess vegna finnst mér mjög viðeigandi að þau verk sem hér um ræðir verði almannaeign með þeim sama hætti, þ.e. með aðgengi.

Líka það að við verðum að nýta hvert tækifæri sem við fáum og spara ekkert til að koma í veg fyrir að íslenskan deyi út eins og margir hafa áhyggjur af, sérstaklega vegna þess að hún gæti orðið undir í stafrænum heimi. Þeim mun mikilvægara er að við gerum allt sem við getum til þess að varðveita það besta sem við eigum og gera það aðgengilegt, bæði þeim sem nú eru uppi og komandi kynslóðum.

Þess vegna ítreka ég aftur að ég gleðst mjög yfir þessu máli og gleðst mjög yfir því að hafa fengið að taka þátt í að það er komið hér á dagskrá.