148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

staða hagkerfisins.

[10:47]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Nú hefur uppgangur hagkerfisins verið með besta móti mjög lengi, alveg rosalega jákvæðir hlutir að gerast í hagkerfinu. En það er augljóst að það er ekki tryggt að þetta haldi áfram til eilífðar. Nú er atvinnuleysi komið upp í 4% sem þykir heldur hátt miðað við hin síðustu ár og er leitnin upp á við hjá sumum þjóðfélagshópum í fyrsta skipti síðan hrunið varð. Þá er komin fram hagspá um að hagvöxtur verði kominn niður í 2,9% árið 2019, sem sumir eru byrjaðir að leitast við að kalla mjúka lendingu.

Hagvöxtur samkvæmt Hagstofu er 7,4% í ár. Tölur ýmissa annarra stofnana í heiminum gefa til kynna að hann sé mun lægri. Það eru hugsanlega mismunandi matsaðferðir í gangi og hjá einum matsaðila er hann kominn niður í 3,1%. Það er lægra en meðaltalshagvöxtur í heiminum.

Ég velti fyrir mér og langar til að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra: Er einhver brotlending í kortunum? Eru einhverjar aðgerðir fyrirhugaðar til að reyna að sporna við þessari óheillaþróun? Er eitthvað sem ríkisstjórnin kemur til með að gera til að reyna að tryggja að hagvöxtur okkar haldi áfram og sé í það minnsta fyrir ofan heimsmeðaltal til næstu ára? Og mun eitthvað af þessum hugsanlegu áætlunum birtast okkur hér á þinginu einhvern tímann fyrir páska?