148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í morgun afgreiddum við úr atvinnuveganefnd ágætt frumvarp sem hafði með það að gera að afnema lög sem innihalda núll ákvæði. Þetta er ríkisstjórnarfrumvarp. Ágætt sem slíkt, það er alltaf gott að taka til í lagasafninu. En þetta er eitt af örfáum frumvörpum sem hefur komið fram frá ríkisstjórninni. Ég velti fyrir mér hver forgangsröðunin sé. Er ekki mögulegt að fá fram eitthvað af þeim fínu málum sem komu fram í málaskrá ríkisstjórnarinnar? Er ekki hægt að fá alla vega nógu mikið af þeim til að mögulegt verði að ræða þau til fullnustu og fara vel yfir þau áður en við neyðumst til að reyna að afgreiða sem flest þeirra nú í vor?

Ég segi eins og ég hef sagt áður: Skipulagsleysi af ykkar hálfu mun ekki skapa neitt neyðarástand af okkar hálfu þegar komið er fram í maí. Það mun ekki gerast. Við munum ekki leyfa það. Við verðum að gera hlutina betur. Það verða að koma fleiri mál frá ríkisstjórninni.