148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

framlagning stjórnarmála.

[11:16]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Við erum í pólitík til að hafa áhrif og ná fram breytingum, nema við tilheyrum íhaldsflokkum. Verkleysi ríkisstjórnarinnar opinberar að hér eru við völd þrír íhaldsflokkar. Ég hélt til að byrja með, þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum, að það væri einn íhaldsflokkur, Sjálfstæðisflokkurinn, sem kærði sig ekki um miklar breytingar. Það kemur mér sorglega á óvart að hjá Vinstri grænum, kannski ekki í tilfelli Framsóknarflokksins, virðist það sama upp á teningnum. Við sáum þetta með fjárlögin hér fyrir jól. Nánast engar breytingar frá fráfarandi ríkisstjórn. Við sjáum þetta í fjármálastefnunni, sem við ræðum í fjárlaganefnd í dag, að það eru nánast engar breytingar milli ríkisstjórna. Maður veltir fyrir sér: Til hvers fóru þessir flokkar, Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn, í þessa ríkisstjórn? Verkleysi og dugleysi endurspeglast í þessum þingsal í því að við fáum engin stjórnarfrumvörp.