148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

ábendingar í rannsóknarskýrslum Alþingis.

78. mál
[12:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því í sjálfu sér að hér sé lögð mikil áhersla á aðskilnað löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Það er nýlunda úr þeirri átt eftir því sem ég best fæ séð [Hlátur í þingsal.] og ég er mjög ánægður með þá þróun.

Hins vegar finnst mér svolítið, ég vona að ég sé ekki dónalegur, eins og efni skýrslubeiðninnar hafi ekki komið alveg nógu skýrt fram til þess að hv. þingmenn og hæstv. ráðherra átti sig á hlutverki sínu í þessu.

Þarna er spurt hverjar ábendingarnar séu, hvernig hafi verið brugðist við þeim og hvaða ábendingum hafi ekki enn verið brugðist við. Er einhver hætta á því að framkvæmdarvaldið segi ekki satt frá því hvernig sé með þessar spurningar? Er einhver hætta á því að framkvæmdarvaldið, vegna þess að það er framkvæmdarvaldið, gefi okkur rangar tölur eða segi okkur ekki rétt frá? Hvaðan annars staðar en úr framkvæmdarvaldinu, þangað sem ábendingunum er beint, eigum við að fá þessi gögn?

Þetta er þingið að sinna eftirlitshlutverki sínu. Svona lítur það út. Það þarf enga þingnefnd til þess. Framkvæmdarvaldið þarf bara að upplýsa (Forseti hringir.) þingið, t.d. í skýrslu, t.d. samkvæmt þessari beiðni.