148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

Landsréttur.

[15:09]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er komin hingað til að ræða stöðu Landsréttar. Nú er það svo að fyrir dómi eru tvö mál í héraðsdómi vegna skipunar dómsmálaráðherra á dómurum í Landsrétt. Í Landsrétti er mál sem varðar hæfi tveggja af þeim fjórum sem skipaðir voru fram hjá niðurstöðu hæfnisnefndar og í Hæstarétti er jafnframt verið að fjalla um Landsrétt þar sem verið er að kanna hvað varðar hæfi þriðja dómarans sem skipaður var fram hjá niðurstöðu hæfnisnefndar um dómara í Landsrétt.

Við höfum nú fengið bréf frá umboðsmanni Alþingis sem á eftir að fjalla um. En ég velti fyrir mér í ljósi þessa að allir dómstólar, þ.e. héraðsdómur, Landsréttur og Hæstiréttur, eru með til umfjöllunar það ástand sem hefur skapast í íslensku réttarkerfi í kjölfar ákvörðunar og framkvæmdar dómsmálaráðherra við skipun landsréttardómara sem og vegna þeirra dóma sem hafa komið til okkar og borist okkur utan úr Evrópu, bæði frá EFTA-dómstól og Mannréttindadómstól Evrópu, hvort forsætisráðherra hafi engar áhyggjur af stöðu dómskerfisins á Íslandi, hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að dómskerfið sé laskað vegna þessara framkvæmda og það verði laskað áfram nema gripið verði á einhvern hátt í taumana af hálfu forsætisráðherra.

Loks vil ég spyrja: Nýtur dómsmálaráðherra trausts forsætisráðherra sem yfirmaður dómsmála á Íslandi?