148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

Landsréttur.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hvað varðar þau dómsmál sem hv. þingmaður vísar í þá eru þau enn til umfjöllunar. Vissulega er Landsréttur búinn að komast að niðurstöðu hvað varðar einn dómara en önnur mál eru enn til umfjöllunar. Ég ætla nú ekki að fara að tjá mig um þau mál meðan þau eru til umfjöllunar í dómskerfinu, annars vegar hjá Landsrétti og hins vegar hjá Hæstarétti.

Ég las hins vegar um bréf umboðsmanns Alþingis í fjölmiðlum í morgun. Þar kom fram að umboðsmaður ætlar ekki að taka þetta mál til frekari umfjöllunar en boðar hins vegar frumkvæðisathuganir um stigagjöf og varnir í dómsmálum sem ég held að sé ágætt að umboðsmaður Alþingis geri.

Hvað það varðar að ég hafi áhyggjur og ætli að grípa í taumana hvað varðar dómskerfið í landinu vil ég segja að ég ber almennt traust til dómskerfisins í landinu. Ég geri það. Ég tel ekki ástæðu til að grípa í taumana hvað varðar dómskerfið í landinu sem hv. þingmaður orðar svo. Ég átta mig ekki á því hvort hv. þingmaður er að leggja til að ég grípi inn í þá skipan sem Landsréttur og Hæstiréttur eftir atvikum eru með til umfjöllunar hjá sér. Það þætti mér alla vega ekki við hæfi.

Hvað varðar traust mitt til hæstv. dómsmálaráðherra þá ber ég fullt traust til allra ráðherra í þessari ríkisstjórn.