148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi.

[16:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða glæpastarfsemi. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir þessa þörfu umræðu, að taka þessa skýrslu til umræðu, og innlegg hæstv. ráðherra. Fram kom í máli beggja þegar kemur að borgaralegu öryggi hversu breyttu samfélagi við búum í. Ég vil segja að viðbrögð hæstv. ráðherra, fundur með ríkislögreglustjóra um skýrsluna og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í þessum breytta heimi eru mikilvæg skilaboð ein og sér.

Þetta kallar á árvekni allra, það blasir við. Starfsemi lögreglunnar og umfang breytist, og ekki síður skipulag og möguleikar til að bregðast við. Kröfur eru auknar, annars konar nálgun á vinnubrögð. Það er staðfest í skýrslunni. Við höfum haft fregnir af afbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu og víðar þar sem vísbendingar eru um að þaulskipulögð starfsemi eigi sér stað og að á bak við hana séu þaulskipulagðir glæpahringir.

Vísbendingarnar eru víða, fíkniefnaheimurinn er harðari, skipulögð starfsemi af hópum sem hafa gífurleg umsvif og fjárráð. Þannig að þetta er sannarlega ógn við samfélag okkar í meira mæli en áður. Það kallar á aukin og annars konar vinnubrögð. Það er áhyggjuefni þegar afbrotastarfsemin er orðin jafn víðtæk og þaulskipulögð og fram kemur í skýrslunni. Ég mun halda áfram máli mínu í seinni umferð.