148. löggjafarþing — 34. fundur,  6. mars 2018.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Kolefnisspor og kolefnishlutleysi eru hugtök sem okkur verða sífellt tamari og skilningur manna á þeim hefur aukist undanfarin misseri. Hugmyndin um að við eigum ekki að auka á kolefnisnotkun og stuðla að bindingu sem nokkurs konar gjald fyrir þá notkun sem við stöndum fyrir verður æ almennari.

Bændasamtökin hafa til að mynda nýverið sett af stað mjög metnaðarfullar áætlanir um kolefnisjöfnun íslensks landbúnaðar. Hugmyndin um svokallað „slow food“ hefur einnig rutt sér til rúms, þ.e. sú hugmynd að menn eigi að neyta fæðu sem er framleidd nálægt neyslustað og að þannig séum við að stuðla að því að minnka kolefnisspor enn meir og stuðla að betra umhverfi og auk þess að öðru jöfnu sé þá væntanlega um ferskari matvæli að ræða og þá að öðru óbreyttu heilnæmari.

Hinum megin á þessum ás er svo hin svokallaða krafa samtímans um að geta hvenær sem er keypt og neytt hvaða fæðu sem er óháð staðbundnu framboði eða framleiðslu óháð árstíðum. Slík neysluhyggju hefur óhjákvæmilega í för með sér aukið kolefnisspor, sérstaklega á landi eins og okkar sem liggur frekar fjarri framleiðslu- og ræktunarstöðvum nágrannalandanna.

Til að draga úr kolefnisspori hafa menn komið með alls konar hugmyndir og ein þeirra er að setja kílómetragjald á matvæli sem flutt eru til landsins með flugvélum eða skipum og þá kannski í fyrsta hring að hugleiða hvort slíkt væri hægt í umhverfisverndartilgangi. Og sérstaklega þegar um er að ræða afurðir sem hægt væri að framleiða hér á landi með minna kolefnisspori. Slíkt kynni að vera árstíðabundið en ég held að fullt tilefni sé til að skoða þetta. Slíkt gjald gæti til að mynda hvatt menn til að stýra innflutningi þannig að þeir horfðu í það um hve langan veg matvæli ferðuðust áður en þau kæmu til landsins og veldu þá frekar að flytja inn matvæli sem væru framleidd nær og því minni umhverfismengun af flutningi þeirra hingað.