148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:10]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra grípur nú til mælskubragða en lendir í rökvillu. Hann vísar í hefðarrétt og telur að ekki eigi að nota vantraustið vegna þess að það hafi ekki verið notað frá 1940. En hann tilheyrir hins vegar ríkisstjórn sem hefur lagt áherslu á siðbót og þá á hefðarréttur einfaldlega ekki við hvernig laga má hluti ef aldrei má taka upp nýja siði. Fyrr má nú vera íhaldssemin að telja að það sé ómálefnalegt þegar tekist er á um ólöglega skipan á heilu dómstigi. Það má vera illa áttaður ráðherra sem vitnar í landsfund Samfylkingar og telur að málið hafi komið upp á tveim síðustu dögum. Hann ætti kannski að líta upp úr Mogganum, virða fyrir sér heiminn, hlusta á almenning og átta sig á því um hvað menn hafa verið að tala á síðustu misserum.

Mér fannst málsvörn forsætisráðherra vera yfirklór, kattarþvottur, og í rauninni var hann að drepa málinu á dreif. Mál hæstv. dómsmálaráðherra er ekki til umfjöllunar hjá dómstólum. Það eru afleiðingar ólöglegra gjörða hennar sem eru þar að valda vandamálum. Á orsökinni eigum við að taka, á sjúkdómum eigum við að taka en ekki sjúkdómsafleiðingunum. Loks er útúrsnúningur og forherðing hæstv. dómsmálaráðherra skýrasti vitnisburðurinn um að við ættum auðvitað að samþykkja þetta vantraust. Það eru nefnilega ekki talin málefnaleg sjónarmið fyrir því að auka dómarareynslu eða fjölga konum, eins gott og það nú er, ef málið er ekki rannsakað og ef ekki er farið í heildarmat á öllum umsækjendum.

Hér hefur komið fram að umboðsmaður Alþingis ætli líka að hefja frumkvæðisrannsókn á framkvæmd mats almennt við ráðningu og skipan í embætti á vegum hins opinbera. Hann hafði hins vegar orð á þessu fyrst árið 2016, ekkert í tengslum við þetta Landsréttarmál, heldur vegna annarra mála. Og loks, hæstv. fjármálaráðherra: Við erum ekki að greiða atkvæði um manneskjuna Sigríði Á. Andersen, heldur hæstv. dómsmálaráðherra. Og það er beinlínis ósmekklegt að láta að því liggja að hér sé eitthvert persónulegt mál á ferðinni. Þetta er grafalvarlegt mál. Þetta varðar það hvort við ætlum sem samfélag að rísa upp úr lægð vantrausts og koma okkur upp betra orðspori hjá almenningi í landinu.