148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[18:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Alþingi á ekki stjórnast af aflsmunum heldur vitsmunum, skrifaði Ólafur Páll Jónsson heimspekingur í grein árið 2009. Í nefndaráliti minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skipun dómara í Landsrétt segir, með leyfi forseta:

„Ef við hugleiðum hlutverk Alþingis þá er það auðvitað skylda okkar að tryggja það að almenningur geti haft traust á Alþingi sem stofnun, alveg eins og almenningur geti haft traust á dómstólunum, framkvæmdarvaldinu, vissum stofnunum sem almenningur verður að geta treyst að séu réttlátar, því að það er undirstaða okkar samfélagsgerðar.“

Þar kemur einnig fram að rannsóknarskyldu var ekki sinnt, andmælaréttur var ekki virtur og „að um er að ræða grundvallarmál sem varðar skipun nýs dómstóls sem er falið mikilvægt hlutverk í dómskerfi landsins og markar tímamót í réttarsögunni“ og nauðsynlegt að skipun dómara væri yfir allan vafa hafin.

Undir þetta skrifa núverandi hæstv. forsætisráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Það er hafið yfir allan vafa að dómsmálaráðherra braut lög og upplýsti þingið ekki um sérfræðiálit gegn ákvörðun hennar. Vanvirðing hennar gagnvart þinginu er algjör.