148. löggjafarþing — 35. fundur,  6. mars 2018.

vantraust á dómsmálaráðherra.

344. mál
[19:05]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Já, það er vægast sagt dapurlegt að vera stödd hér í þessum tilgangi en staðreyndin er sú að við höfum kallað eftir breytingum og við höfum kallað eftir betri stjórnskipan. Við höfum kallað eftir ábyrgð. Það er nákvæmlega það sem sú kona sem hér stendur segir líka. Ég vil sjá ábyrgð og ef við sem embættismenn hjá framkvæmdarvaldinu eða hvar annars staðar sem er verðum uppvís að því að hafa brotið lög þá finnst mér skilyrðislaust að við eigum að axla ábyrgð.

Við viljum gjarnan bera okkur saman við löndin í kringum okkur. Við sjáum að þar þarf nú ekki nema að nota rangt vísakort þegar maður kaupir bleiur, þá þarf maður að segja af sér. Ég segi líka að það er afskaplega dapurlegt að heyra í rauninni undirliggjandi hótanir hjá hæstv. dómsmálaráðherra þegar löggjafarvaldið á að axla sína ábyrgð og standa undir því hlutverki sem það er jú borið til að gera. — Þingmaðurinn segir já.