148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Mig langar að vekja athygli á grein Þuríðar Hörpu Sigurðardóttur, formanns ÖBÍ, í Fréttablaðinu í dag þar sem hún viðrar áhyggjur sínar af því að hugsanlega eigi að segja upp rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands við sjúkraþjálfara. Ég get ekki annað en tekið undir áhyggjur formanns ÖBÍ og þá sérstaklega þá staðreynd að aðgangur fólks að sjúkraþjálfun er í uppnámi, rétt svo þegar eitthvert skikk var komið á með samningi frá síðasta ári sem gerði fólki kleift að sækja sjúkraþjálfun, fólki sem áður hafði ekki tök á því vegna kostnaðar.

Þegar svo loksins er komið til móts við einstaklinga sem þurfa að nýta sér sjúkraþjálfun með þessum rammasamningi sem gerður var gerist það að allt of margir sækja sér sjúkraþjálfun, eðlilega þar sem fólk hafði þá loksins möguleika til þess að sækja sér þjónustuna þar sem gjaldskráin var lagfærð. Þess vegna er til athugunar að segja samningnum upp.

Ég fagna því að ræða eigi skýrslu Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands á eftir því að oft er þörf en núna er greinilega nauðsyn. Það þarf að vera skýrt hvaða leið á að fara. Einstaklingar eiga að geta reitt sig á þjónustu heilbrigðiskerfisins óháð efnahag. Það er furðulegt að takmarka eigi aðgengi að þjónustu sem nýtist mörgum og það er ekkert eðlilegt við þetta stefnuleysi. Það er ekkert eðlilegt við það að gefa í einn daginn og draga svo úr þann næsta. Það á enginn að þurfa að búa við þetta stefnuleysi.