148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda heilbrigðisþjónustu, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherrra.

[16:57]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að setja fram nokkrar fullyrðingar um heilbrigðiskerfið okkar. Það vantar fjárfestingu í innviðum, fjárskortur lamar og veikir þjónustuna og föst fjárveiting til mikilvægustu stofnunar landsins, Landspítalans, er tímaskekkja sem eykur vanda sjúkrahússins og kerfisins í heild. Ég fullyrði að fjármunum er sóað vegna skipulagsleysis sem ríkir og ég tek undir brýningu hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar, sem þekkir kannski íslenskt heilbrigðiskerfi betur en flest okkar hér inni, að það er kominn tími til að við mörkum heildstæða langtímastefnu í heilbrigðismálum. Við erum að súpa seyðið af þeirri staðreynd að hér hafa verið of margir heilbrigðisráðherrar, með fullri virðingu fyrir öllum sem setið hafa í þeim stóli, og þar með hefur samfellan og framtíðarsýnin ekki orðið sú sem við viljum. Við getum tekist á um hana en við þurfum auðvitað að marka framtíðarsýn. Ég er þess fullviss að hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra hefur töluvert góðan tíma fram undan til að marka stefnuna á næstu árum og til langrar framtíðar.

Í umræðum um Sjúkratryggingar Íslands held ég að það sé nauðsynlegt að hafa í huga hvaða hugmyndafræði liggur á bak við þær. Það er auðvitað að tryggja að fjármagn fylgi sjúklingum og í annan stað að greiðslur ríkisins til veitanda heilbrigðisþjónustu séu í samræmi við þá þjónustu sem veitt er. Við viljum að þarfir sjúkratryggðra, sem við öll erum, almenningur á Íslandi, séu alltaf í forgangi. Þessi regla á að gilda jafnt um sjálfstætt starfandi aðila innan heilbrigðiskerfisins og þeirra heilbrigðisstofnana sem ríkið rekur með beinum hætti. Við eigum að hafa þetta óháð rekstrarformi. Þetta kallar á það að við skilgreinum þjónustuna og réttindin með skilmerkilegum hætti, réttindi sjúkratryggðra. Það er forsenda þess að við náum að tryggja góða og heildstæða þjónustu, að við náum að forgangsraða og við veitum markvisst fjármagn þangað sem við viljum að það fari og það nýtist með þeim hætti sem við viljum og við náum árangri.

Ríkisendurskoðun bendir á mikilvægi þess að Sjúkratryggingar tryggi markviss og þjóðhagslega hagkvæm kaup á heilbrigðisþjónustu með samningum sínum. Það þurfi að endurskoða rammasamningsfyrirkomulag vegna kaupa á þjónustu sérgreinalækna utan sjúkrahúsa. Það er einnig hvatt til þess að stofnunin kanni hvort mögulegt sé að semja um þjónustu hverrar sérgreinar fyrir sig með ítarlegum kröfulýsingum sem taka mið af þörfum sjúkratryggðra, stefnu ráðherra um heilbrigðisþjónustu og viðmiðum embættis landlæknis.

Þetta eru allt þarfar ábendingar en um leið vil ég vekja athygli á því sem ríkisendurskoðandi segir, þ.e. að brýnt sé að Sjúkratryggingar haldi áfram að þróa samning stofnunarinnar við Landspítalann um framleiðslutengda fjármögnun klínískrar þjónustu. Það er til mikils að vinna að samningurinn verði nýttur til að hámarka skilvirkni og hagkvæmni spítalans sem einnar af meginstoðum okkar góða heilbrigðiskerfis, sem er þrátt fyrir allt með því betra sem þekkist í heiminum þótt gallarnir séu vissulega fyrir hendi.

Ég hef lengi talað fyrir því og er ekki einn um það að nauðsynlegt sé að taka upp skýrari stefnumótun og fjármögnun þegar kemur að Landspítala Íslands. Við verðum að hverfa frá þeirri hugmyndafræði að vera með Landspítala Íslands á föstum fjárlögum. Fremur eigi að semja við Landspítalann á grundvelli ferilverka, hinnar klínísku þjónustu. Verkefnatengd fjármögnun, getum við kallað það. Þetta er hugmyndafræði um að fé skuli fylgja sjúklingi og þeirri þjónustu sem þarf að veita honum. Ég hygg að við munum aldrei ná raunverulegum árangri fyrr en við tryggjum að þetta gangi fram með þeim hætti, að unnið verði eins og Landspítalinn hefur í rauninni verið að gera, hann hefur verið að þróa svokallað ferilkerfi, DRG-kostnaðargreiningarkerfi, og við eigum að stærstu leyti að fjármagna Landspítalann út frá samningum milli Sjúkratrygginga Íslands og Landspítalans undir þeirri forskrift sem lögð er fram í stefnumótun heilbrigðisráðherra hverju sinni.

Ég vakti í síðustu viku einmitt athygli á því hvað svona fjármögnun og breyting á fjármögnun getur gert fyrir þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Ég vitnaði þá í frétt sem birtist í Ríkisútvarpinu og var viðtal við Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en þar benti hann einmitt á árangurinn af nýju fyrirkomulagi við fjármögnun heilsugæslustöðva. Þær fá greitt miðað við þann fjölda einstaklinga sem er skráður á viðkomandi heilsugæslustöð og tekið er tillit til annarra lýðfræðilegra þátta sem eru íþyngjandi fyrir heilsugæsluna, heilsugæslan fær greitt samkvæmt þessu. Árangurinn er sá að við höfum séð biðtíma á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins styttast úr u.þ.b. fjórum vikum í eina viku og jafnvel innan við það. Við getum náð svipuðum árangri á öðrum sviðum í heilbrigðisþjónustu ef við fylgjum þeirri forskrift sem ríkisendurskoðandi í rauninni bendir á að brýnt sé að þróa áfram og við eigum að taka það alvarlega.

Ég held að það sé rétt sem bent hefur verið á, að við fjármögnun heilbrigðisþjónustunnar verðum við auðvitað að ná einhverjum sameiginlegum skilningi um verkefnið. Ég held að það sé nauðsynlegt að við hættum að spyrja: Hver á að gera hvað? Ég held að við eigum fremur að fara að spyrja: Hvað á að gera og hvers vegna? En fyrst og fremst held ég að við þurfum að koma okkur upp öðrum mælikvarða á gæði heilbrigðisþjónustunnar en þeim sem oft vill brenna við að við notum, sem eru þær fjárhæðir sem við setjum í heilbrigðiskerfið. Fjárhæðin sem slík segir ekkert til um gæði þeirrar þjónustu sem veitt er né hvernig við nýtum fjármunina.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í dr. Ásgeir Jónsson, dósent og deildarforseta hagfræðideildar Háskóla Íslands, sem var í útvarpsviðtali á Sprengisandi rétt fyrir síðustu jól þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„Það sem er alltaf talað um er hvað við eyðum miklum peningum í heilbrigðismál. Það er ömurlegur mælikvarði, vegna þess að það eru til lönd sem eyða miklum peningum í sín heilbrigðiskerfi, eins og Bandaríkin, en eru samt með ömurlegt kerfi.“