148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

293. mál
[17:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skil vel að hv. þingmaður hafi ekki skilið svarið. Mér var ekki ljóst sjálfri hvað ég var að segja á köflum. Hins vegar held ég að það sé ágætt að nálgast þessa umræðu frá hinni hliðinni. Meiningin með frumvarpinu er ekki að refsa neytendum. Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu mun það einungis hafa áhrif á þá sem standa að ólöglegum innflutningi o.s.frv. En af hverju dagskammtar eru ekki tilgreindir í frumvarpinu — það er vegna þess að ef ekki á að refsa neytendum myndu þeir stóru, þ.e. „steratröllin“, auðveldlega falla inn í refsirammann þar sem neysluskammtur þeirra getur verið hundraðfaldur dagskammtur einhvers annars. Þess vegna var horfið frá þeirri nálgun að reyna að nálgast það að til væri eitthvað sem héti ásættanlegur skammtur eða dagskammtur eða hvað það væri. En ég geri mér grein fyrir því að þetta getur verið flókið fyrir einhverja en þá þarf að kalla til þá sem eftir löggjöfinni kalla, bæði tollyfirvöld og lögreglu, og þá sem eru að horfa til löggjafar í löndunum í kringum okkur, þar sem þessi nálgun hefur gefist vel, og leitast við að kanna hvort það álitamál sem hv. þingmaður spyr hér um veldur vandræðum einhvers staðar í framkvæmd laganna. Ef svo er ekki ættum við að geta farið sömu leið hér á landi og í löndunum í kringum okkur.

Ég tel fulla ástæðu til að taka mark á því þegar tollyfirvöld og lögregla óska eftir því að heimildir séu skýrðar vegna þess að það þarf líka að vita hvað á ekki að gera athugasemdir við, ekki síður en það sem þarf að vera undir hatti laganna. Það sama gildir um áherslur ÍSÍ í þessum efnum. Þetta eru aðilar sem mér finnst mikilvægt að við hlustum á og tökum mark á. Í því skyni er þetta frumvarp lagt fram.