148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

siglingavernd og loftferðir.

263. mál
[18:03]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast örstutt við umræðunni við þetta mál. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að ástæðan fyrir því að við ætlum að taka á þessu er að við þurfum að standast ákveðinn samanburð í alþjóðasamfélaginu. Það er einfaldlega þannig að ef það gerist að t.d. laumufarþegar komast um borð í skip og sigla til Bandaríkjanna, þangað sem margir vilja fara, getur niðurstaðan orðið sú að Reykjavíkurhöfn, útflutningshöfnin, verði útilokuð sem útflutningshöfn af hálfu þeirra sem þar eru, eða í það minnsta fengið mjög háar fjársektir.

Varðandi flugið geta ítrekuð öryggisatvik leitt til þess að önnur ríki hætta að treysta flugvöllum okkar, með tilheyrandi óþægindum fyrir alla flugfarþega sem um Ísland fara. Þannig að þarna eru miklir hagsmunir í húfi. Það eru fjölmörg tilvik þar sem brotist hefur verið inn á haftasvæði t.d. Siglingaverndar, og inn á Keflavíkurflugvöll, m.a. til þess að stöðva för flugvéla, ekki endilega til að komast um borð. Þetta mál tekur því ekki á flóttamönnum í sjálfu sér, það á að tryggja að við séum með eðlilegt regluverk í kringum haftasvæðin.

Eins og ég hef líka sagt er eðlilegt að nefndin fjalli um hvernig það er gert með skynsamlegustum hætti. Varðandi það sem hefur verið breytt og kom fram hjá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur, var bakgrunnsákvæðið unnið eftir umsögnum frá umhverfis- og samgöngunefnd á sínum tíma. Að mati okkar í ráðuneytinu er það mun skýrara en í gildandi rétti og betur upp sett. Það er mildara en það sem áður var en engu að síður í samræmi við það sem gerist á alþjóðavettvangi. Við gerum ekki strangari kröfur en önnur hvað það varðar.

En þarna vega salt annars vegar þeir mikilvægu hagsmunir um að við getum stundað hér eðlilega flutninga á fólki og vörum frá og til Íslands og það hvernig við tökum með mannúðlegum og skynsamlegum hætti á þeim sem brjóta slíkar reglur. Það er grafalvarlegt að brjóta þær.