148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

Bankasýsla ríkisins.

[10:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég lít þannig á að megininntak þessarar fyrirspurnar snúi að ákvæðinu sem fjallar um starfstíma Bankasýslunnar. Það hefur verið litið svo á að þarna séu birt í lögum áform, sem menn höfðu upphaflega, um starfstíma Bankasýslunnar. Á sínum tíma kynnti ég opinberlega hugmyndir um að fylgja þessum áformum eftir þannig að við myndum leggja Bankasýsluna niður sem sjálfstæða stofnun en myndum áfram gæta að armslengdarsjónarmiðum með því að hafa nefnd sérfræðinga undir fjármálaráðuneytinu í stað stofnunar til að gæta að því hlutverki. Þá kom mjög skýrt fram í þinginu að menn töldu ekki ástæðu til þess. Að auki var það almennur skilningur manna hér að stofnunin yrði ekki lögð niður án þess að um það yrði fjallað í sérstöku nýju lagaákvæði.

Af þessum sökum er það hárrétt, sem hv. þingmaður bendir hér á, að ákvæðið hefur elst illa, ákvæði um að stofnunin skyldi einungis starfa í fimm ár. Nú stendur það þarna yfirgefið af þinginu og gild rök fyrir því að taka eigi það upp. En í mínum huga leikur enginn vafi á því að stofnunin getur gegnt sínum lögbundnu hlutverkum, gengið formlega frá löggerningum sem undir hana heyra samkvæmt lögunum, þar með talið að ganga frá undirritun samninga eins og þeirra sem hér hefur verið vísað til.