148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætis yfirferð. Ég held að við deilum skoðunum að sumu leyti varðandi í fyrsta lagi opinber fjármál og hvernig hefur tekist að vinna úr þeim. Það er hins vegar að mínu viti mikilvægt að heyra aðeins ofan í þingmenn, ekki síst þingmenn þá sem sitja í fjárlaganefnd varðandi þær túlkanir sem munu eiga sér stað í framhaldi og framtíðinni eftir þingmál sem þetta.

Mig langar þó fyrst að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að fjárstjórnarvald Alþingis hafi styrkst í raun og veru við þessa breytingu á lögum um opinber fjármál og við að innleiða núna þetta frumvarp um markaðar tekjur. Persónulega hef ég efasemdir um að fjárstjórnarvald Alþingis hafi eitthvað styrkst með því. Hins vegar þekki ég það aðeins hinum megin frá að framkvæmdarvaldinu líður ögn betur.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það að sumar stofnanir hafa haft stóran hluta sinna tekna í gegnum sértekjur. Ég hef áður tekið þetta upp í þessum ræðustól. Ef ég man rétt þá var hér skóli fyrir norðan um tíma sem hafði a.m.k. 40% af sínum tekjum sem sértekjur. Mun viðkomandi stofnun eða slíkar stofnanir fá þetta að fullu bætt? Það er mjög mikilvægt að skilaboðin komi skýrt frá Alþingi að stofnanir sem hafa fengið ákveðið háar sértekjur sitji áfram við sama borð.

Ég ætla að leyfa mér að vera ekkert endilega sammála hv. þingmanni þegar kemur að nefskatti og sértekjum, ég geri ekki mikinn greinarmun þar á. Þetta eru allt peningar sem eru merktir á ákveðna staði, hvort sem það heitir nefskattur eða sértekjur eða markaðar tekjur eða hvað eina. Ég held að það sé nú bitamunur en ekki fjár (Forseti hringir.) þegar kemur að túlkun á því.