148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda.

424. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess að Lífeyrissjóður bænda gæti breytt samþykktum sínum til annars vegar — í gr. 13.6 í þeim samþykktum er kveðið á um þennan makalífeyri — þyrfti fjármála- og efnahagsráðuneytið að samþykkja slíkar breytingar. Það ráðuneyti gerði það algerlega ljóst, eins og kemur fram í nefndarálitinu, að það myndi ekki samþykkja slíkar breytingar, af þeim ástæðum að það væri sjóðnum óheimilt.

En það er líka alveg þess virði að nefna að samsvarandi ákvæði eru í samþykktum annarra lífeyrissjóða án þess að á því hvíli sérstök lagaskylda. Til að mynda er kveðið á um sambærileg sérákvæði um ótímabundinn eða ævilangan makalífeyri í samþykktum Stapa lífeyrissjóðs og Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Ef þetta er vandamál hjá Lífeyrissjóði bænda þá er þetta vandamál víðar. Ef þetta væri eitthvað sem sjóðfélagar væru líklegir til að fara með fyrir dómstóla myndi það í fyrsta lagi gerast eftir að lífeyrissjóðurinn hefði reynt að hætta að greiða út þennan lífeyri, sem hann þyrfti að gera með því að fá samþykktir sínar samþykktar í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Og það liggur fyrir að slíkt myndi ekki gerast, ráðuneytið myndi ekki samþykkja slíkar breytingar og segir það berum orðum. En í þokkabót er það lagaleg hætta sem hefur verið til staðar frá upphafi. Málflutningurinn og rökstuðningurinn er sá að með því að veita þessi auknu réttindi sé verið að taka af réttindum annarra. Það er áhyggjuefnið. En það er ekki þannig að óheimilt sé að setja í samþykktir aukin réttindi. Það má og það er gert í öðrum lífeyrissjóðum og þarf ekki lagastoð til þess.

Ég vil bæta því við að Lífeyrissjóður bænda kallaði sérstaklega eftir áliti Fjármálaeftirlitsins og svar þess var sömuleiðis alveg skýrt um þetta efni. Sem fyrr var rakið taldi Fjármálaeftirlitið þetta byggt á ákveðnum misskilningi. Ég er ekki viss um að ég geti útskýrt þetta betur en þetta.