148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:34]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið og spurningarnar. Fyrst að því hvort ég telji að aðgerðir af þessu tagi eigi að eiga sér stað sem einhliða aðgerð eða tvíhliða tollasamningur. Ég held að ég hafi komið inn á það í fyrra andsvari mínu að ég tel að meginreglan þurfi að vera tvíhliða samningar þar sem leitast er við að hafa þá gagnkvæma. Varðandi þjóðir eins og þessar þá tel ég þetta réttlætanlegt og í raun skynsamlegt og sanngjarnt, og með einum eða öðrum hætti mennskt, að styðja við alþjóðaviðskipti þessara þjóða með þessum hætti.

Aftur að landbúnaðarvörunum: Meginrökin fyrir innflutningstollum á landbúnaðarvörum er í mínum huga matvælaöryggið og þá fyrst og fremst í skilningi hreinleika íslenskra framleiðsluvara. Það er svo sem þekkt, fyrir þá sem hafa kynnt sér það, að í íslenskri matvælaframleiðslu er sem betur fer mjög lítið notað af sýklavörnum og öðrum varnarefnum sem erum mjög mikið notuð víða erlendis. Það atriði er alltaf fremst í röðinni, svo að það sé sagt skýrt.

Ég held líka að það sé markmið í sjálfu sér að styðja við það að íslenskur landbúnaður geti vaxið og dafnað og lifað góðu lífi. Það er hluti af því að halda landinu í byggð, það er hluti af því að túristarnir sem hingað koma upplifi það að hér sé búsældarlegt og gott að vera. Það eykur líkurnar á því að fólk ferðist um hinar dreifðu byggðir. Þannig að rökin eru margvísleg hvað þetta varðar. En fyrst og fremst snúa þau að hreinleika íslenskrar matvælaframleiðslu.