148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[21:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð nú bara að viðurkenna á mig þann glæp að hafa ekki pælt í því neitt svakalega mikið. Mér finnst í eðli sínu eðlilegt miðað við það hvernig skattkerfi þurfa að vera — nei, ég ætla að byrja á öðrum stað. Mér finnst skattar vera í grundvallaratriðum gjaldið sem við borgum fyrir að búa í tiltölulega siðmenntuðu samfélagi, skattar sem við borgum fyrir að geta haft t.d. lögreglu, slökkvilið, miðlægt heilbrigðiskerfi og menntun. Svo er fólk auðvitað ósammála um nákvæmlega hvað það vill hafa í þeim pakka sem það kallar siðmenntað ríki eða lýðveldi. En það er grunnnálgunin sem ég fer inn á þar. Ég get alveg ímyndað mér heiminn fyrir mörg hundruð árum þegar ekki voru einhverjir skattar, svo þegar átt hafi að koma á einhverjum sköttum hafi fólk hugsað með sér: Það hlýtur að vera tímabundið.

Mikið af sköttum voru reyndar settir á eins og þeir ættu að vera tímabundnir en það var ekki alltaf þannig, stundum urðu þeir varanlegir. (Gripið fram í.)

En grunnatriðið sem ég sé í t.d. tekjuskatti og virðisaukaskatti, sem ég hugsa í fljótu bragði, með fyrirvara um að ég hef kannski ekki hugsað þetta alveg jafn mikið og ég ætti að gera til að svara hv. þingmanni almennilega, er að erfðafjárskattur felur í sér það sama, tilfærslu á fjármunum. Það er ekki bara eitthvað sem er til staðar. Ef hv. þingmaður á við eitthvað eins og segjum auðæfaskatt, eða hvað hann hét, auðlegðarskattinn á sínum tíma, þá er mér nú aðeins að snúast hugur núna, er aðeins farinn að verða hlynntari honum með tímanum. Á sínum tíma var ég mjög á móti honum af þeirri ástæðu að mér finnst eitthvað að því að taka einfaldlega eitthvað sem er til staðar, en finnst það vera annað þegar tilfærsla er á fjármunum. Tilfærsla á fjármunum er hluti af því hvernig hagkerfið sjálft virkar. Það er í raun hluti af þessu púkki sem við erum öll í. Ég sé ákveðinn grundvallarmun þar.

Eins og þingmaðurinn (Forseti hringir.) heyrir kannski er ég svolítið að hugsa upphátt. En takk fyrir spurninguna. Hún er áhugaverð. Mér finnst áhugavert að ræða grundvallaratriði eins og skattlagningu, við gleymum okkur stundum á bak við (Forseti hringir.) alla tæknina, að það eru prinsipp þarna undir einhvers staðar.