148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum með lista yfir 47 ríki sem munu fá að flytja inn ákveðnar vörur, tollfrjálst, og er það hið besta mál í sjálfu sér. Hins vegar má velta fyrir sér sem er í rauninni það sem maður hefur séð að það er ekki síður mikilvægt að efla innviðina í þessum löndum til að einhver árangur náist til þess í rauninni að hlutir sem þessir, að fella niður tolla, skili meiri árangri en við getum kannski vænst til bara með því að fella niður tolla. Það er að sjálfsögðu með því að efla innviðina. Hluti af því er að stuðla að valdeflingu kvenna, þannig að konur fái menntun, geti menntað sig, fái réttindi og leyfi til þess að reka fyrirtæki, eiga jarðir, bústofn og þess háttar. Í mörgum af þessum löndum er lítil hefð fyrir því, því miður, og gerir það að verkum að þau hafa dregist aftur úr og dragast aftur úr. Konum er ætlað að vinna mikið heima, vinna mikið á ökrunum og þess háttar.

Dæmi eru um að aðstæður kvenna hafa batnað, t.d. með því að þær þurfa að sækja vatn um styttri veg en ella. Hvað gerist þá? Þá kvarta karlarnir yfir því að þær hafi ekkert að gera bara vegna þess að til verður kannski hálftími eða klukkutími eða tveir á dag af því að styttra er að sækja vatnið. Þann tíma gætu þær að sjálfsögðu nýtt til að læra, stofna fyrirtæki eða til að búa til eitthvað sjálfar.

Það er því þörf víða, ekki alls staðar að sjálfsögðu, á mikilli viðhorfsbreytingu. Að mínu mati er það ekki síður mikilvægt að styrkja innviðina, efla þátt kvenna í efnahagslífinu á þessum stöðum, í þessum löndum, en að aflétta bara tollunum.