148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:39]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni kærlega fyrir svarið. Það er kannski rétt að nálgast spurninguna þannig: Eru einhverjar þær aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hafa komið beint að á síðustu árum, að því er hv. þingmaður best þekkir til, þar sem valdefling kvenna hefur verið í sérstökum fókus innan þeirrar þróunaraðstoðar sem veitt er af hendi íslenskra stjórnvalda? Þekkir hv. þingmaður til þess, annaðhvort frá þeim tíma þegar hann var í embætti utanríkisráðherra eða síðar eftir atvikum, hvernig þau verkefni hafa gengið? Ef verkefnin sem utanríkisráðuneytið hefur verið að sinna ná kannski ekki inn á þetta svið, vil ég spyrja hvort hann sæi fyrir sér að það væri hugsanlega mál sem ástæða væri til að setja fremst í röðina ef svo má segja til að ýta undir og styðja við þá innviðauppbyggingu og innri uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað á nærsvæðum þessara þjóða.

Eins og komið hefur fram hjá mörgum sem hafa talað fyrr í umræðunni er hluti af vandamálinu auðvitað pólitískt ástand heima fyrir og innviðir og veik staða, hvort sem það er einstaklinga almennt, menntunarlega, eignarréttarlega eða hvernig sem það kann að vera. En fremst í röðinni skyldi maður ætla að aukin þekking væri til þess að vinna á þeim vandamálum á heimasvæðum þessara þjóða.