148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurninguna. Það hefur verið meginþemað eða eitt af mikilvægustu þemunum í aðstoð Íslands að horfa til þess hvernig hægt er að valdefla konur og umhverfi þeirra, störf þeirra og slíkt. Það hefur bara gengið ágætlega á mörgum stöðum. Auðvitað gengur þetta misvel. Það hefur sýnt sig að þar sem þetta hefur gengið eftir er árangur, þá styrkist samfélagið og hlutirnir ganga betur.

Hitt er annað að það er oft mjög útsjónarsamt fólk sem við erum að aðstoða. Ég man eftir einu dæmi sem ég ætla að leyfa mér að nefna, ég held ég muni það nokkurn veginn, að í einu ákveðnu landi var ákveðið að gefa tvö reiðhjól til kvenna þannig að þær gætu aðstoðað hver aðra þegar kæmi að fæðingum og slíku. Þær voru svo snjallar að þær leigðu annað hjólið til karlmanns sem þurfti að leigja hjól og gat stundað bisness, notuðu hitt hjólið í þessi verkefni og fengu fjármuni inn sem þær gátu þá nýtt til að kaupa hluti til að hjálpa konum líka.

Þarna varð allt í einu til úr þessum tveimur reiðhjólum bisness sem skilaði öllum og samfélaginu og ekki síst þeim hópi sem þarna átti í hlut betri stöðu og aðstöðu. Þetta er eitt lítið dæmi um hvað það skiptir máli að taka þátt, hvað skiptir máli að setja þetta í réttan farveg og treysta fólki líka að sjálfsögðu. En okkur finnst þetta kannski lítill hlutur og svolítið skrýtinn, en þarna skipti þetta gríðarlega miklu máli, þar sem sjúkrabíll þarf kannski að keyra mörg hundruð kílómetra til þess að nálgast konur í barnsnauð, en ekki er kannski til bensín á hann nema annan hvern mánuð. Þá skipta svona hlutir miklu máli.