148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið. Þetta er áhugavert atriði að tæpa á og undirstrikar kannski hversu flókið þetta er. Auðvitað er hægt að horfa á mál eins og þetta þar sem horft er til sértækra aðgerða gagnvart 47 vanþróuðum ríkjum í efnahagslegu tilliti, en þegar horft er á þetta í víðara samhengi eins og hefur verið rætt hér töluvert fyrr í umræðunni kemur margt annað inn í myndina en sú afmarkaða sýn að skynsamlegt sé að fella tolla niður einhliða.

Mér leikur hugur á að vita, í framhaldi af fyrra svari hv. þingmanns, hvaða áhrif hann telur að það hafi og hvort áhrifin séu í eðli sínu einhver önnur af því að nýta ódýrt vinnuafl sem vinnur verulega undir kjarasamningum, t.d. hér á landi eða í nágrannalöndum okkar, við verri kjör og í verri vinnuréttarstöðu en við gerum kröfur um hér heima. Sér þingmaðurinn einhvern mun á því í eðli sínu að niðurgreiðslan eigi sér stað þar eða hvort hún felist í því að þjóðir „dömpi“, er ég áfram fastur í, eða skelli umframframleiðslu sinni sem er þegar niðurgreidd og með mjög takmarkaða arðsemiskröfu inn á markaðinn hérna?