148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[22:55]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Á þessu er enginn eðlismunur. Það gildir það sama hvort sem framleiðslan á sér stað hér á landi eða erlendis, það er ekki hægt að ætlast til þess að menn keppi á ólíkum forsendum. Raunar má segja að það geti gilt það sama innan lands. Ég skal taka dæmi.

Hér gerum við ákveðnar kröfur til iðnaðarmanna varðandi í mörgum tilvikum menntun, færni, og þeir, eðlilega, gera kröfur um kaup og kjör á móti. Að sjálfsögðu. Væri það ásættanlegt að okkar mati ef erlent fyrirtæki gæti boðið í hin ýmsu verk hér, segjum t.d. bara að mála hús hjá einhverjum, og flutt inn vinnuafl frá öðru landi án þess að greiða því í samræmi við kaup og kjör á Íslandi? Jafnvel, svo ég vitni aftur í ræðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar, þræla? Því miður er þrælahald enn staðreynd í heiminum. Væri það eðlilegt, ásættanlegt, ef sá möguleiki skapaðist að menn flyttu hér inn fólk sem væri ekki einu sinni frjálst og léti það vinna hér verk? Vissulega fyrir lægra verð, það yki samkeppnina, en á kostnað íslenskra iðnaðarmanna sem þurfa að uppfylla hin ýmsu skilyrði en fá eðlilega á móti sæmilega þóknun.

Það má kannski líka líkja þessu við stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í umhverfismálum, loftslagsmálum, þar sem hefur verið vilji til að gefa einhliða eftir stöðu Íslands í loftslagsmálunum. En hvað þýðir það? Það þýðir að við fáum ekki á móti frá öðrum ríkjum það framlag sem við gætum fengið ef þetta væru (Forseti hringir.) býtti. Við þurfum alltaf að líta á það að ef við gefum eftir á þessu sviði erum við að gefa eftir ákveðin verðmæti, ákveðna stöðu, (Forseti hringir.)og þurfum að sjá það sama á móti.