148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Í seinni ræðu minni ætla ég aðeins að tala meira um upprunaregluna sem aðeins er fjallað um í 1. gr. frumvarpsins. Þar er sagt að heimilt sé að setja með reglugerð sérstakar upprunareglur sem gildi um innflutning þeirrar vöru sem um ræðir. Við hljótum þá að velta því fyrir okkur hvernig þær reglur koma til með að líta út, hvaða kröfur verði gerðar til þeirra sem vilja mögulega flytja vörur til Íslands frá þessum 47 ríkjum. Verða það sambærilegar kröfur og eru gerðar í dag til innflutnings frá EES-svæðinu? Eða verða gerðar auknar eða minni kröfur?

Ég bíð nokkuð spenntur eftir því að sjá hvernig ráðherrar hyggjast leysa þetta. Nú reynir á að ráðherrar horfi til hags neytenda, þegar að þessu kemur, þ.e. að neytendur þekki sögu vörunnar sem þeir kaupa, hvaðan hún kemur o.s.frv. Ég vil gjarnan nota tækifærið til að hvetja þá ráðherra sem geta breytt reglum er varða upplýsingar til neytenda til að gera það þannig að neytendur velkist ekki í vafa um hvað þeir eru að kaupa. Það stendur með litlum stöfum einhvers staðar á beikoninu hvert upprunalandið sé og menn gera sér ekki grein fyrir því hver saga þess blessaða dýrs sem er í umbúðunum var.

Aðeins aftur að samráðinu: Ég geri ráð fyrir að einhver komi þessari spurningu til ráðherra því að ráðherra er ekki í salnum. Ég nenni ekki að biðja hana aftur um að koma í salinn. Það er mikilvægt, alla vega gott, að fá upplýsingar um það af hverju samráðið var ekki meira en hér er og af hverju ekki var farið eftir þeim lögum sem kveða á um þetta.

Varðandi þessi 47 ríki: Það hefur áður komið fram í ræðu minni og hjá öðrum að vitanlega eru möguleikar til þess að beita ýmsum þáttum til að hjálpa þessum löndum. Eitt nefndi ég ekki í fyrri ræðu minni sem getur skipt máli í því sem við erum að fjalla um hér — þ.e. að flest þessi ríki eru að framleiða landbúnaðar- eða iðnaðarvörur sem þau flytja svo út — en það er landgræðsla, hvernig hægt er að græða upp land. Ísland hefur náð gríðarlega miklum árangri, svo að eftir er tekið, í því að beisla hálendi Íslands, eða Ísland eins og það leggur sig, sem var á sínum tíma einhver stærsta eyðimörk Evrópu, að græða það upp. Það hefur líka sýnt sig að landgræðsluskólinn, sem við köllum svo, Háskóli Sameinuðu þjóðanna, hefur skilað gríðarlega mikilvægum og verðmætum einstaklingum út og þá til landanna sem þeir koma frá. Það er of lítið talað um þennan skóla, finnst mér, um þetta framlag Íslands sem er gríðarlega mikið. Þarna getum við mögulega flutt út þekkingu meira en við gerum í dag, en það þarf vitanlega fjármagn. Það þarf fjármagn inn í þessa skóla til þess að taka á móti fleiri nemendum sem geta kannski ekki fengið styrki heiman að o.s.frv. Með því að styrkja við þetta svið, með því að flytja út þá þekkingu og kunnáttu sem við höfum, sem er alveg frábær, þá getum við gert betur.

Mig langar, í tilefni af því að ég er að nefna þetta, að varpa fram spurningu sem ég átta mig ekki alveg á. Það kom fram hér að setja á tugi eða hundruð milljóna í framboð til stjórnarsetu í UNESCO, minnir mig. Mér finnst að við ættum að velta fyrir okkur hvort við fáum meira út úr því og heimurinn allur með því að setja tugi eða hundruð milljóna í eyðimerkursamninginn svokallaða sem við erum aðilar að, sem er að sporna gegn þornun og eyðimerkurmyndun lands. Það væri mjög þarft verk. Það er verk sem skilar öllum heiminum gríðarlega miklu, hvort sem það varðar framleiðslu á vörum eða til að berjast gegn uppblæstri og mengun í rauninni. Því að uppblástur lands og eyðimerkurmyndun er ein af þeim ógnum sem heimurinn stendur frammi fyrir þegar kemur að hnattrænni umhverfisógn.

Það er af mörgu að taka ef við horfum á þessi ágætu ríki, þau 47 sem eru undir í þessu frumvarpi. Ég vona svo sannarlega að þetta mál fái ítarlega og góða umfjöllun í nefnd og að leitað verði eftir umsögnum eða samráði sem ekki var gert við gerð þess.