148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

tollalög.

518. mál
[23:35]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir svör hans. Ég velti ýmsu öðru fyrir mér í þessu sambandi. Hæstv. ráðherra talaði um að Ísland væri með þessu að stíga markvert skref og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi með að hjálpa þessum löndum að flytja út sínar vörur, þó að innflutningurinn til Íslands væri í afskaplega litlum mæli, 3,5 millj. kr. Hæstv. ráðherra talar líka um að 97% af þeim vörum sem eru taldar upp í tollskrá væru undanþegin tolli, og taldi svo upp nokkrar vörur sem nytu sérstakrar verndar.

Ég átta mig ekki alveg á því og hef ekki litið á tollskrána varðandi það hvaða vörur nákvæmlega það eru, en hún talaði um fisk og ávexti og dýr og eitthvað slíkt. Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvaða vörur þetta eru helst sem hér um ræðir sem við flytjum inn frá þessum vanþróuðu, lítt þróuðu ríkjum. Hefur hann einhverja hugmynd um hvaða vörur er að ræða sem eru í svona litlu magni? Og hverju það skipti, hvort það sé einhver innlend samkeppni sem myndi verða fyrir barðinu á þessu.

Annað sem ég myndi vilja spyrja er í hvaða heimsálfum og á hvaða heimssvæðum þessi ríki eru, hvort hv. þingmaður viti nánar um það hvaða ríki um ræðir.

Annars vil ég bara þakka fyrir þessa umræðu sem hefur verið afskaplega upplýsandi.