148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[16:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta er dæmi um mál sem batnaði m.a. í meðförum þingsins og ekki síst eftir samtöl þvert á flokka og þvert yfir stjórn og stjórnarandstöðu. Þetta er gott dæmi um að mikilvægt mál getur verið tekið sterkum tökum hér innan húss og vil ég sérstaklega þakka formanni og framsögumanni fyrir að hafa beitt sér í málinu. Ég styð málið, er á meirihlutaáliti frá nefndinni, m.a. út frá því að tekið var tillit til margra athugasemda sem við settum fram. Það er verið að taka veigamikið skref til að styðja við atvinnulífið og ekki síður efla tækifæri okkar Íslendinga til að auka verðmæti okkar, útflutningsvörur okkar og þjónustu. Þetta er mikilvægt skref sem ég styð og við í Viðreisn. Ég efa ekki að málið hefði hugsanlega batnað við frekari meðferð þingsins og við skulum skoða það innan tiltekins tíma, þá förum við aftur yfir málið, en eins og málið lítur út núna (Forseti hringir.) er það mun betra af hálfu þingsins en þegar það kom inn.