148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

Íslandsstofa.

492. mál
[16:22]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál kom inn í þingið í mjög annarlegu ástandi, [Hlátur í þingsal.] enda verið að reyna að búa til einhvers konar sjálfseignarstofnun utan um það sem hefur verið í samvinnu einkaaðila og ríkis í flestum löndum og það vantar félagaform fyrir það. Sem betur fer náðist að vinna málið mjög vel í nefndinni og laga mikið af þeim göllum sem eru á því, jafnvel flesta, ásamt því að koma því þannig fyrir að málið verði tekið til algerrar endurskoðunar eftir þrjú ár, sem er jákvætt.

Stuðningur okkar við málið er vegna þess að hægt er að endurskoða það á þennan hátt. Það eru vandamál sem ég vona að muni ekki bitna mikið á starfsemi Íslandsstofu í framhaldinu. Þau snúast kannski fyrst og fremst um að ekki er nema örlítið brot af atvinnulífinu sem fær raunverulegan aðgang að stofnuninni. En hvað sem því líður er þetta ágætisskref fram á við og (Forseti hringir.) eftir þrjú ár munum við vonandi leggja til mjög róttækar breytingar til að laga allt það sem upp á vantar.