148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

um fundarstjórn.

[18:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég kom hér upp til þess að fagna þeim sáttarhug sem ég heyrði í orðum hæstv. fjármálaráðherra — eða ekki. En það er alveg rétt sem hann segir; ef ekki næst samkomulag um að ráða hér málum með einhverjum skikkanlegum hætti verða þau ráðin einhvern veginn öðruvísi. Það verður sjálfsagt engum til framdráttar og þinginu ekki til aukinnar virðingar. Það er ekki hægt að láta allt yfir sig ganga. Ef menn standa ekki við samkomulag sem gert hefur verið verða menn bara að taka afleiðingunum af því og munu halda áfram að gera það eins lengi og hægt er. Ég gleðst hins vegar yfir orðum hæstv. fjármálaráðherra um að við getum haldið lengi áfram inn í nóttina. Ég hef saknað þess allan þennan vetur að fá ekki almennilegan næturfund og er albúinn í að vera hér næstu nætur við góða skemmtan. Það er ekkert meira uppbyggilegt og skemmtilegt (Forseti hringir.) en að vera hér næturlangt. (Gripið fram í: Segðu.)