148. löggjafarþing — 77. fundur,  12. júní 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[18:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er afskaplega sérkennilegt að menn skuli ekki treysta sér til að taka afstöðu til þessa máls, sumir hverjir, því að þetta mál er ekki nýtilkomið. Menn hafa verið að ræða mál er varða verðtrygginguna og samsetningu hennar árum saman. Skipaðar hafa verið nefndir og meira að segja hafa verið skipaðir átakshópar til þess að framkvæma tillögur nefnda. Ég minni á að snemma á árinu 2014 samþykkti þáverandi ríkisstjórn aðgerðaáætlun um hvernig standa ætti að afnámi verðtryggingar. Það var ekki klárað á öllum stöðum. En síðar hafa menn tekið upp aðra nálgun, m.a. þessa nálgun hér, að byrja á því að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni og hafa flokkar eins og Framsóknarflokkurinn gert það að sérstöku stefnumáli. Ekki það að skipaður yrði starfshópur til að skoða kosti þess að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni, nei, stefnan var sú að það ætti (Forseti hringir.) að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni. Þá hljóta menn að vilja nota tækifærið nú til að greiða atkvæði um það.