133. löggjafarþing — þingsetningarfundur

afsal þingmennsku.

[14:23]
Hlusta

Aldursforseti (Jóhanna Sigurðardóttir):

Borist hefur bréf um afsal þingmennsku frá 7. þingmanni Reykjavíkurkjördæmis norður, Halldóri Ásgrímssyni, dagsett 5. september sl., sem hljóðar svo:

„Með bréfi þessu afsala ég mér þingmennsku frá og með deginum í dag að telja.

Síðan ég var fyrst kjörinn á Alþingi sumarið 1974 hef ég átt gott samstarf við fjölda fólks á vettvangi þingsins. Ég kveð Alþingi því með söknuði en er jafnframt afar þakklátur öllu því fólki sem ég hef haft tækifæri til að kynnast og starfa með. Ég færi núverandi alþingismönnum og starfsfólki Alþingis sérstakar þakkir fyrir gott og ánægjulegt samstarf. Ég óska Alþingi, alþingismönnum og starfsfólki þingsins allra heilla í framtíðinni.“

Við þingmennskuafsal Halldórs Ásgrímssonar tekur Sæunn Stefánsdóttir fast sæti á Alþingi og verður 11. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður.

Ég býð hinn nýja þingmann, Sæunni Stefánsdóttur, velkomna til starfa á Alþingi. Hún hefur áður tekið sæti á Alþingi og er því öllum hnútum vel kunnug hér.

Jafnframt vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka Halldóri Ásgrímssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir langt og farsælt starf hans í þágu þings og þjóðar. Hann hefur átt sæti á Alþingi síðan 1974 að hálfu öðru ári undanskildu og verið ráðherra lengur en aðrir núlifandi stjórnmálamenn, og raunar næstlengst allra frá því innlendur ráðherra hóf störf 1904. Halldór Ásgrímsson hefur því sett mikinn svip á störf Alþingis og þjóðfélagið allt á sínum langa stjórnmálaferli.

Við kveðjum hann með óskum um velfarnað á nýjum vettvangi. — Ég óska honum og fjölskyldu hans allra heilla á komandi árum.