138. löggjafarþing — 44. fundur,  15. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er með miklum ólíkindum hversu illa búið þetta mál er komið í hendur þingsins. Það liggur fyrir að við vinnslu þess hefur verið mjög mikill hraði og ekki gefist tími til að fara ítarlega í gegnum mjög margar lykilstærðir þessa frumvarps sem er svo mikilvægt fyrir afkomu þjóðarbúsins á næsta ári. Það liggur enn fremur fyrir, miðað við þær tillögur sem liggja fyrir frá stjórnarmeirihluta fyrir 2. umr., að hallinn á ríkissjóði er að aukast og verður tæpir 102 milljarðar kr. og frumjöfnuður versnar um 18,3 milljarða milli 1. og 2. umr. Ég trúi því tæpast að stjórnarmeirihlutinn gangi til verka með þeim hætti að láta þá stærð standa óhreyfða við 3. umr. Stjórnarandstaðan hefur boðið upp í það verklag að vinna að því milli umræðna að lækka þessa stærð og ég treysti því að á það (Forseti hringir.) sáttaboð verði fallist og tekið í þá hönd sem þar er rétt fram.