139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[21:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mikið hefur verið rætt um Sjálfstæðisflokkinn í þessari umræðu og hæstv. forsætisráðherra sagði að hann logaði stafnanna á milli. Nú vill svo til að ég er þingmaður þess flokks, hef ekki orðið var við þessa loga og er m.a.s. hjartanlega sammála formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, um að gjá hafi myndast á milli Alþingis og þjóðarinnar og um að það þurfi að kjósa. Við erum sammála í því.

Ég óttast hins vegar afleiðingar þeirrar helstefnu sem ríkisstjórnin er að reyna, þ.e. að reyna að skatta þjóðina út úr kreppunni. Það hefur aldrei tekist. Ég óttast að við stefnum inn í langtímakyrrstöðu og stöðnun, atvinnuleysi til margra ára.

Ég segi já við því að þessari helstefnu verði hætt.