140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:08]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit og breytingartillögu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um meðferð Alþingis á drögum að nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaráð hefur sent Alþingi. Ég fagna því að þetta nefndarálit og breytingartillögurnar eru komnar hingað inn og framhaldi málsins. Það er í meginatriðum algjörlega í samræmi við þá tillögu sem lagt var upp með í upphafi.

Það hefur verið frekar dapurlegt að hlusta á málflutning sjálfstæðis- og framsóknarmanna þar sem þeir hafa einfaldlega rangt við þegar þeir fjalla um málið. En þetta eru leiðir rökþrota fólks, það fer bara með ósannindi ef það getur ekki neitt annað og þannig verður það að vera.

Upphaf þessa máls má, eins og ég sagði fyrr í dag, þakka sjálfum Framsóknarflokknum sem gerði það að kröfu sinni við stuðning ríkisstjórnar fyrir ekki löngu síðan að farið yrði í heildarendurskoðun og gerð nýrrar stjórnarskrár. Það endaði kannski með því að þeir fengu ekki að stjórna málinu öllu sjálfir og þess vegna er hluti þingflokks þeirra hundfúll yfir því hvernig komið er. Það sama má segja um Sjálfstæðisflokkinn, sjálfstæðismenn hafa staðið í vegi fyrir þeim stjórnarskrárbreytingum sem hefur þurft að gera í 60 ár og eru þar af leiðandi hundfúlir yfir því að aðrir skuli hafa tekið frá þeim þann kaleik og fari nú með hann í gegnum þingið.

Hér var haldinn þjóðfundur með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Slíkt úrtak þýðir að fullkomlega heill og eðlilegur þverskurður þjóðarinnar kemur saman, hvorki meira né minna en yfir þúsund manns. Þar voru lagðar fram hugmyndir um hvað ætti að vera í nýrri stjórnarskrá. Síðan vann Alþingi málið áfram og þáverandi allsherjarnefnd og þingið ákvað að kalla til svokallaða stjórnlaganefnd, nefnd sjö manna, sem átti að fjalla um það sem kom fram á þjóðfundinum og allar þær tillögur sem höfðu áður verið unnar á vegum þingsins hvað varðar breytingar á stjórnarskránni, þar á meðal þá miklu vinnu sem nefnd undir forustu Jóns Kristjánssonar hafði unnið, og birta allar þær hugmyndir í skýrslu, sem kom svo út í tveimur bindum þar sem voru meðal annars drög að tveimur nýjum stjórnarskrám, gríðarlega vönduð og mikilvæg vinna. Í framhaldi af því var ákveðið að þjóðin kysi sér stjórnlagaþing. Það voru hvorki meira né minna en 500 frambjóðendur fyrir það stjórnlagaþing og hvorki meira né minna en 84 þús. manns sem kusu úr þeim hópi 25 til að skrifa nýja stjórnarskrá byggða á allri þeirri vinnu sem hafði átt sér stað árið og áratugina á undan. Það er því alrangt sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa haldið fram, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og stjórnlagaráð séu að draga einhverja kanínu upp úr hatti með illa unnið mál gert í tímahraki, það er algjörlega rangt. Mig langar að hvetja það fólk til að fara með rétt mál í þingsal.

Dómur Hæstaréttar um kosninguna var hneisa. Þetta voru bestu og flottustu kosningar í sögu lýðveldisins. Ég hef aldrei áður á ævinni farið á kjörstað og haft allt of mikið af hæfum frambjóðendum að velja úr, en þarna hafði maður það. Dómur Hæstaréttar í kjölfarið var hneisa, hann ógilti kosningarnar en hvergi var sýnt fram á að umfjöllunaratriðin sem Hæstiréttur fjallaði um hefðu haft áhrif á niðurstöðuna. Það var hvergi sýnt fram á að niðurstaðan hefði orðið öðruvísi ef þeir ágallar sem Hæstiréttur benti á hefðu ekki verið fyrir hendi. Slíkt er einsdæmi í lýðræðisríkjum. Menn finna að ýmsum atriðum í kosningum en menn dæma þær ekki ógildar nema hægt sé að sýna fram á að niðurstaðan hefði orðið önnur. (Gripið fram í: Heyr, heyr!) Þess vegna héldu margir því fram að sá dómur Hæstaréttar væri hugsanlega pólitískur enda hefur Hæstiréttur Íslands því miður verið skipaður á pólitískum forsendum í allt of langan tíma.

Í framhaldi af dómi Hæstaréttar stóð það upp á Alþingi að finna leið út úr þessu máli og Alþingi gerði það með eðlilegum hætti. Það var útbúið hér frumvarp um stjórnlagaráð í stað stjórnlagaþings. Það var fyllilega eðlilegt framhald á málinu. Þeir 25 sem höfðu verið kosnir á stjórnlagaþing voru með umboð 84 þús. Íslendinga til að skrifa nýja stjórnarskrá og stjórnlagaráð kom einfaldlega saman í kjölfar þess og vann málið áfram.

Stjórnlagaráðið bjó ekki eitt og sér til þessa nýju stjórnarskrá. Stjórnlagaráðið byggði á tillögum stjórnlaganefndarinnar, það byggði á tillögum þjóðfundarins, það byggði að hluta á öllum þeim tillögum sem hafa verið unnar fyrir Alþingi og af Alþingi í áratugi. Þetta er því miklu meira verk en bara verk stjórnlagaráðs. Og stjórnlagaráð kallaði á sinn fund alla mögulega og ómögulega sérfræðinga í stjórnarskrárgerð sem hægt var að ná í til að ráðfæra sig við þá. Enn einu sinni er málflutningur þeirra sem eru andsnúnir þessu máli einfaldlega rangur.

Stjórnlagaráð skilaði góðu verki eftir mikla yfirlegu og aðkomu fjölmargra sérfræðinga. Meðferð Alþingis á tillögum stjórnlagaráðs er einnig til fyrirmyndar. Það var farin mjög lýðræðisleg leið að tillögu sem ég var meðal annars flutningsmaður að ásamt fleiri þingmönnum og hefur vinna stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við málið verið mjög vönduð. Tillagan gerði upprunalega ráð fyrir að málið tæki skemmri tíma í meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og færi svolítið fram og til baka en vegna þess að nefndarmenn töldu sig þurfa að vinna málið betur en reiknað var með þá breyttist einfaldlega sú aðferð örlítið, en dagsetningar og annað breyttist ekkert í því máli. Meðferð málsins hefur verið til framdráttar fyrir málið og verið til framdráttar fyrir stjórnarskrána og til framdráttar fyrir lýðræði í landinu. Þjóðin mun vonandi í framhaldinu, í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, segja Alþingi hug sinn til málsins.

Hvað vilja menn hafa þetta betra ef menn eru að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir þjóðina? Auðvitað vitum við að sjálfstæðismenn vilja skrifa hana einir og sér, en þjóðin vill það ekki. Þjóðin hefur hafnað Sjálfstæðisflokknum í stjórnarskrárgerð og sjálfstæðismenn verða einfaldlega að sætta sig við þann beiska kaleik og spyrja sig frekar af hverju það er en að gagnrýna þá sem vilja gera vel fyrir þjóðina.

Alþingi fær málið aftur til meðferðar og ef þjóðin vill að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu fara með það samkvæmt núverandi stjórnarskrá mun það koma inn í þingið næsta haust og Alþingi hafa málið til meðferðar yfir heilt þing. Ef því býður svo við að horfa mun það skila af sér verkinu í lok þess þings, nákvæmlega eins og stjórnarskrá Íslands gerir ráð fyrir. Í því ferli geta þingmenn allir komið sjónarmiðum sínum á framfæri við allar greinar frumvarpsins og kallað enn einu sinni til alla þá sérfræðinga sem þeir vilja. Hvað vilja menn hafa þetta betra?

Ég las yfir nefndarálit 1. minni hluta, hv. þingmanna Birgis Ármannssonar og Péturs Blöndals. Þar koma fram ýmsar athugasemdir og hef ég svarað þeim öllum í þessari ræðu minni. Þetta er ekki neitt til að hafa áhyggjur af. Ný stjórnarskrá fyrir Ísland mun fara í venjulegt hefðbundið ferli á vegum Alþingis þó að hún hafi farið í undirbúningsferli áður en að því kemur. Það er virðingarvert að þingið sýni þjóðinni þá virðingu að spyrja hana álits, ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur. (BirgJ: Heyr, heyr!) Við eigum að fagna því.

Varðandi þær samsæriskenningar sem formaður Sjálfstæðisflokksins fór með hér fyrr í dag þá vísa ég þeim til föðurhúsanna. Hér er um þingmál nr. 6 að ræða, það kom fram á þingi í byrjun október, það er unnið í samvinnu við þingmenn úr öðrum stjórnarflokknum, það var lagt fyrir í upphafi þings, löngu áður en forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar óskuðu eftir viðræðum við Hreyfinguna milli jóla og nýárs um einhvers konar aukið samstarf vegna þess að það hafði kvarnast úr meirihlutavaldi þeirra á þingi. Þar var stjórnarskráin aldrei neitt umdeilanlegt mál. Við höfum alla tíð, alveg frá upphafi, frá fyrsta degi þessa kjörtímabils, verið samstiga stjórnarmeirihlutanum í því að skrifa þurfi nýja stjórnarskrá. Það sem skildi á milli voru ýmis málefni er varða skuldamál heimilanna og aðrar brýnar lýðræðisumbætur sem við vildum koma að strax, eins og að hægt yrði að taka upp persónukjör í næstu kosningum og þess háttar.

Það að formaður Sjálfstæðisflokksins, sjálfur vafninga-Bjarni eins og hann er almennt kallaður, skuli leyfa sér að kasta rýrð á þingmenn vegna þess að þeir styðja hér þingmál er náttúrlega hneisa, en er kannski ekkert óeðlilegt miðað við það umhverfi sem hann kemur úr og þá tugi ef ekki hundruð milljarða sem hafa tapast á aðkomu hans og samkrulli sem stjórnmálamanns við viðskiptalíf í landinu. Það er verðugt rannsóknarefni og það er gagnrýnivert. En það að þingmenn skuli hér styðja þingmál og halda áfram að styðja það þremur árum síðar er eðlilegt. En það er óeðlilegt í hugum þeirra sem geta ekki skilið samvinnu við annað fólk með öðrum hætti en að einhvers konar greiðsla þurfi að koma í milli. Það er dapurlegt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli vera með formann sem er þannig þenkjandi.

Frú forseti. Vonandi verða núverandi drög að tillögum stjórnlagaráðs samþykkt óbreytt í meginatriðum af þjóðinni og síðar af Alþingi því að þjóðin þarf nýja stjórnarskrá og hún hefur þurft nýja stjórnarskrá í 70 ár. Það eru allir sammála um það að núverandi stjórnarskrá var upprunalega bráðabirgðaplagg, meira að segja forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins viðurkenndu það á sínum tíma.

Þessu ferli er enn ekki lokið en það færist áfram með fullri þátttöku allrar þjóðarinnar og það er betra en hægt er að hugsa sér að hafa það. Þó að nokkrir þingmenn í Framsóknarflokknum — ekki allir heldur nokkrir, örfáir — séu að þyrla hér upp moldviðri og hafi hátt um málið, og þó að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu á móti því þá er hér um mál þjóðarinnar að ræða og það mál þarf að fara í gegn. Hinir hafa damlað á móti nauðsynlegum breytingum nógu lengi.

Frú forseti. Mig langar að ljúka máli mínu með því að vitna í aðfaraorð draga að nýrri stjórnarskrá sem eru að mínu mati falleg og segja allt um það hugarfar sem þarf í framhaldinu, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Frú forseti. Þetta eru fögur og merkileg orð og við megum ekki láta örfáa þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins koma í veg fyrir að þau verði að veruleika.